Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:46:50 (4808)

2002-02-18 15:46:50# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Smátt og smátt er að dragast upp mynd af hugarfari og vinnubrögðum í kringum einkavæðingarveislu ríkisstjórnarinnar. Í ljós kemur t.d. að ofan í ríflega þóknun í stjórnskipaðri nefnd, sem ég lít svo á að einkavæðingarnefnd sé, eru nefndarmönnum greiddar milljónir á milljónir ofan í eitthvað sem kallað er sérfræðistörf fyrir nefndina sem þeir sitja sjálfir í. Það má spyrja: Er þess að vænta að þetta fyrirkomulag verði almennt í tengslum við nefndarstörf á vegum ríkisins og mun það ekki draga nokkuð langan slóða ef þessar nokkur hundruð nefndir, opinberar og stjórnskipaðar nefndir út og suður, láta sér þetta allt saman að kenningu verða og hafa þetta sem fordæmi?

Síðan kemur á daginn að formaður stjórnar Landssímans hefur auðvitað komið sér upp svipuðu fyrirkomulagi til þess að hafa þetta þægilegt hjá sér. Það má velta því fyrir sér, herra forseti, hvort ein skýringin eða réttlætingin á þessu sé sú að þarna sé um árangurstengdar greiðslur að ræða, því að ég hygg að þeir hafi báðir rökstutt þetta sérstaklega, þessa miklu vinnu og þessar miklu greiðslur, formaður einkavæðingarnefndar og formaður stjórnar Landssímans, með hliðsjón af því að þetta sé svo mikil vinna í kringum Landssímann. Það hefur þá væntanlega tekist svona vel og þarna er um sérstakar bónusgreiðslur til þessara snillinga að ræða fyrir vel unnin störf, eða hvað? Hvað á að bjóða mönnum í þessum efnum, herra forseti?

Síðan er öllu pakkað inn í leyndarhjúp eftir því sem kostur er. Athyglisvert er í kringum þessi mál að allar upplýsingar hefur þurft að sækja með töngum í formi fyrirspurna á Alþingi, í formi úrskurða hjá úrskurðarnefnd eða þá að blaðamenn hafa grafið þær upp. Öllu hefur verið leynt sem hægt hefur verið að leyna og maður skilur auðvitað hvers vegna það er gert þegar upplýsingarnar koma í ljós.

Ég minni á að Ríkisendurskoðun hefur nú hafið störf á grundvelli beiðni okkar um að störf einkavæðingarnefndar með sérstakri hliðsjón af einkavæðingu Landssímans verði rannsökuð og það er afar brýnt að því starfi ljúki sem fyrst.