Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:49:17 (4809)

2002-02-18 15:49:17# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:49]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði áðan í umræðum að hann væri tilbúinn til þess að fara yfir þau mál sem snúa að upplýsingagjöf m.a. til þingsins frá framkvæmdarvaldinu.

Herra forseti. Ég vona að hæstv. forsrh. nýti vel þann tíma sem fram undan er vegna þess að í morgun fór ég fram á það á fundi í fjárln. að ráðuneytisstjóri forsrn. kæmi á fund nefndarinnar, færi yfir málið, hvers vegna nefndinni var neitað um upplýsingar í desembermánuði og síðan í samhengi við þann úrskurð sem nú hefur fengist varðandi upplýsingagjöf til fjölmiðla. Það er því eðlilegt, herra forseti, að hæstv. forsrh. nýti tímann vel með ráðuneytisstjóra sínum þannig að við sem sitjum í fjárln. fáum hinar gleggstu upplýsingar varðandi þetta mál þannig að nú verði allt sett upp á borð og ekkert falið.

Herra forseti. Margar hliðar eru á þessu máli. Hæstv. forsrh. talaði um að vinnubrögð væru mjög fagleg hjá einkavæðingarnefnd og væntanlega þá einnig hjá stjórnarformanni Símans. Hin faglegu vinnubrögð lýsa sér m.a. í því að þessir ágætu herramenn ráða sjálfa sig til sérfræðistarfa, ráða sjálfa sig til ráðgjafar og síðan fellur spilaborgin, eins og þegar fyrrv. formaður einkavæðingarnefndar kemur fram og segir: Landssíminn er ekki lengur söluvara. Og hvers vegna? Vegna þess að stjórnunin í fyrirtækinu er svo léleg.

Herra forseti. Er þetta ekki ábyrgðarhluti hjá manni sem ráðinn er til slíkra ábyrgðarstarfa og sem hefur slíkt traust hæstv. forsrh. að þar er talað um hin faglegu vinnubrögð? Hvers vegna, herra forseti, var þessi ágæti maður ekki búinn að segja þetta fyrir löngu síðan? Hvers vegna var ferlinu haldið áfram og hvers vegna var kostnaður enn aukinn við ferli sem sjálfur formaður einkavæðingarnefndar taldi vonlaust?