Störf og starfskjör einkavæðingarnefndar

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 15:53:22 (4811)

2002-02-18 15:53:22# 127. lþ. 79.94 fundur 342#B störf og starfskjör einkavæðingarnefndar# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hér komu fram þó að ég sakni þess að öllum spurningum hafi ekki verið svarað og þeim örfáu þingmönnum sem tóku þátt í umræðunum. Hins vegar get ég ekki annað í upphafi máls míns en vakið athygli þingheims á því og bið ég þingheim aðeins að líta yfir salinn að hér vantar alveg fulltrúa eins stjórnmálaflokks, nefnilega framsóknarmanna, annars stjórnarflokksins. Það hefur enginn framsóknarmaður tekið þátt í umræðunni en venjan er sú, herra forseti, að hver þingflokkur hefur getað mannað og sett tvo á mælendaskrá.

Ég vek athygli á öðru, herra forseti. Það hefur heldur enginn sjálfstæðismaður talað fyrir utan hæstv. forsrh. en Sjálfstfl. hefði líka getað sett tvo á dekk. Það er óvenjuleg lognmolla í salnum. Það getur kannski verið eins og ég sagði í upphafi að á þessari mínútu hafi eitthvað nýtt verið að koma fram og framsóknarmenn hafi þurft að skjóta á fundi til að skoða hvað er nýjast í einkavæðingarferlinu. Þeir eru á flótta frá málinu, framsóknarmenn. Þeir eru á handahlaupum út um allan bæ. Ég trúi ekki að allir framsóknarmenn séu komnir með flensuna sem er að ganga, ég trúi því bara ekki.

Hér hefur verið reynt að ræða um þetta en ég tek eftir því að menn vilja helst ekki ræða þetta einkavæðingarferli Landssímans. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, mér finnst það léleg kaup að kaupa þá þjónustu hjá einkavæðingarnefnd sem skilur ekki vitjunartíma sinn með söluferli Landssímans, að ekki skuli hafa verið hætt við eftir 11. september sl. þar sem allir fjármagnsmarkaðir í heiminum steinlágu í beinu framhaldi af því. Nei, einkavæðingarnefnd hélt áfram veginn, áfram veginn, ekki að gera neitt.

Ég vil rétt í lokin, herra forseti, áður en hæstv. forsrh. kemur hér aftur, bæta við einni spurningu og spyrja hæstv. forsrh. hvort honum sé kunnugt um það að Landssími Íslands hafi þurft að borga eitthvað í þessu einkavæðingarferli fyrir utan ríkissjóð.