Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:16:03 (4818)

2002-02-18 16:16:03# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:16]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Öll laun lífeyrisþega eru beint eða óbeint greidd af vinnandi fólki. Þegar menn eru að bæta kjör lífeyrisþega þá er það greitt af hinum vinnandi með sköttum eða vöxtum eða greiðslum af lánum eða á einhvern hátt. Peningarnir koma ekki frá guði almáttugum. Það er ekki þannig. Spurningin er því hversu góð eiga kjör lífeyrisþega að vera í samanburði við kjör þeirra sem eru vinnandi og eru að ala upp börn og koma sér upp þaki yfir höfuðið o.s.frv. Því er vandmeðfarið hvað eigi að bæta kjörin mikið.

Það kom fram í Morgunblaðinu fyrir stuttu í úttekt á lífeyrismálum að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru umtalsvert betri en gerist á almennum markaði hjá hinum venjulega launþega á Íslandi sem ekki er opinber starfsmaður en verður að greiða þessi ósköp. Hv. þm. sagði við lögreglumenn að þeir gætu hætt í því starfi. Hann gaf í skyn að lögreglumenn mundu þá fara í annað starf þegar þeir væru komnir á lífeyrisaldur og væru komnir með fullan lífeyrisrétt og launaígildi, að þeir gætu verið á tvöföldum launum, eða hvað? Ég spyr hv. þm. að því.

Svo vildi ég fá að vita líka hvernig hann sjái fyrir sér að 170 milljarða ógreidd skuld ríkisins til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins verði greidd, hafandi í huga að almannatryggingar kosta 15 milljarða á ári?