Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:20:21 (4821)

2002-02-18 16:20:21# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við stöndum straum af kostnaði við almannatryggingar og lífeyrisréttindi að hluta til úr skattpyngjum ríkisins. Inn í þá pyngju borga allir landsmenn og fyrirtækin. Ég hef verið einarður talsmaður þess að skattar séu ríflegir á Íslandi til að standa straum af kostnaði við velferðarþjónustu og einnig (PHB: Hækka þá meira?) hins, að öldruðu fólki séu búin bærileg lífskjör. (PHB: Hækka skattana meira.) Ég skil ekki þessa áráttu sem fram hefur ítrekað komið hjá hv. þm. Pétri H. Böndal, að sjá ofsjónum yfir því að fullorðnu fólki, fólki sem hefur lokið starfsdegi sínum séu búin bærileg lífskjör. Honum er ómögulegt að sjá fyrir sér að fólk taki sér nokkuð fyrir hendur án þess að fá greitt fyrir það. Ég var að vísa til viðfangsefna sem fólk mundi taka sér fyrir hendur að sinna á fullorðnisaldri. Ég vék ekkert að launuðu starfi. Ég gerði það ekki. Það gæti verið að fást við önnur verkefni og starfa að uppbyggilegum þáttum þótt það væri ekki í launuðu starfi.

Ég ítreka að hér er verið að stíga framfaraspor. Ég vona svo sannarlega að þegar fram líða stundir komi aðrar stéttir í kjölfarið og allir landsmenn, allir eftirlaunaþegar þessa lands.