Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:28:54 (4824)

2002-02-18 16:28:54# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reikna fastlega með því að báðir hæstv. ráðherrar sem hér eiga í hlut hafi gert þetta samkomulag með fyrirvara um samþykki Alþingis enda er frv. hér komið inn til umræðu þess vegna. Ég býst við að hv. þm. hafi líka fengið þetta stjórnarfrv. til umfjöllunar inni í þingflokki og getað hellt einhverju úr sér gagnvart efni þess þar og undirbúið hæstv. ráðherra sína fyrir það sem hann er hér að segja, þ.e. hvernig eigi að greiða þetta. Heldur hv. þm. --- ég er ekki þeirrar trúar --- að ef heilbrigði þjóðarinnar vex og starfskraftar fólks vaxa með tímanum að þá fari menn eins fljótt og þeir mögulega geta út úr þeim störfum sem þeir eru í? Það gerist ekki nema í þeim tilvikum sem það er nauðsynlegt þeirra vegna og vegna þess að við gerum ákveðnar kröfur um að þeir sem sinni slíkum störfum, eins og störfum lögreglumanna, séu á ákveðnum aldri. Krafan er ekki bara frá lögreglumönnum. Hún kemur líka frá okkur sem njótum þessarar þjónustu. Það er alveg klárlega þannig að hún er ekki eingöngu frá lögreglumönnum. Þegar við höfum verið að funda með lífeyrisþegum hef ég nú frekar heyrt það sjónarmið að þeir vildu láta opna fyrir það að þeir hefðu möguleika á þess að sinna einhverjum störfum, léttari störfum, heldur en að vera ýtt alfarið út af vinnumarkaðnum. Ég hef ekki þessa sömu áhyggjur. En við þurfum að ræða þetta, þ.e. að breytingar þyrfti að gera til að auka möguleika fólks til þess að fara til annarra starfa. Og lögreglumaður sem lýkur störfum sem slíkur 65 ára að aldri og fer í fullt starf annars staðar ætti auðvitað ekki að fá greiddan fullan lífeyri á meðan hann sinnir öðrum störfum.