Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:32:34 (4826)

2002-02-18 16:32:34# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig á að fara að því að greiða lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs? Það er auðvitað alltaf spurning um forgangsröðun hvernig við nýtum það fjármagn sem ríkið tekur inn í sköttum. Hv. þm. talar um skuld upp á 170 milljarða. (Gripið fram í.) Ég man ekki eftir langlokuræðum hér af hv. þm. hálfu þegar var verið að ræða um skattalækkanir á fyrirtækin um þessar skuldir, hvernig ætti að mæta þeim. Ef einhvers staðar er firring þá er hún annars staðar en í röðum stjórnarandstöðunnar, svo mikið er víst. En þetta er alltaf spurning um það hvernig við notum þær skatttekjur sem ríkið fær og til hvers.

Ég býst við að einhverjum sem hafa ekkert of miklar tekjur í dag finnist þeir greiða of háa skatta. Fólk úr mörgum stéttum hefur ekki of miklar tekjur og finnst það greiða of mikla skatta. En þetta sama unga fólk vill nú samt samkvæmt skoðanakönnunum, samkvæmt því sem maður heyrir á fundum og kynnist, fá sína samfélagslegu þjónustu og það vill hafa ákveðið öryggi borgaranna. Væri leitað með þetta frv. til fólksins í landinu og það spurt hvort því fyndist sem hér væri um réttláta aðgerð stjórnvalda og lögregluyfirvalda að ræða þá er ég alveg sannfærð um að yfirgnæfandi meiri hluti væri á þeirri skoðun.

Málið er að forgangsraða því fjármagni sem ríkið hefur rétt, hv. þm. Pétur Blöndal.