Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:35:35 (4828)

2002-02-18 16:35:35# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Eins og jafnan þegar lífeyrismál og Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins ber á góma í þingsölum spinnast um það býsna fjörugar umræður en þó nokkuð almenns eðlis.

Ég ætla að leyfa mér að skipta efni síðari ræðu minnar í tvennt. Í fyrsta lagi langar mig að segja nokkur orð um frv. sem ég mælti hér fyrir og sem Alþingi þarf núna að afgreiða, segja af eða á um. Í öðru lagi langar mig að segja nokkur orð um þessi lífeyrismál að því er varðar opinbera starfsmenn á almennum grundvelli.

Þetta frv. er búið til og samið af alveg sérstöku tilefni. Tilefnið er sá kjarasamningur sem Landssamband lögreglumanna og undirritaður f.h. ríkissjóðs gerðu á síðasta sumri og í honum felst ákveðin viðurkenning á sérstöðu lögreglumanna og starfs þeirra. Í því felst ekki að verið sé að gefa nokkurt sérstakt fordæmi gagnvart öðrum og það felst ekkert fyrirheit af minni hálfu fyrir aðra hópa um framhaldið hvað sem hv. þm. Ögmundur Jónasson eða hv. þm. Pétur Blöndal hafa um það sagt. Vafalaust koma fram einhverjar slíkar kröfur. Þeim verður svarað þegar þar að kemur. En í frv. felst ekkert slíkt fyrirheit.

Í öðru lagi er það auðvitað þannig að þegar ráðherrar gera samninga eða undirrita yfirlýsingar, eins og felst í þessu máli, þá er undirrituð yfirlýsing sem við dómsmrh. gerum og afhendum viðsemjendum í málinu. Og hvað stendur í henni? Jú, að flutt verði frumvörp á Alþingi, annars vegar um breytingu á lögreglulögum og hins vegar á lögunum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Að spyrja hér um það hvort menn hafi gert einhvern slíkan fyrirvara er auðvitað út í hött því það stendur í frv. sjálfu hvers eðlis þetta mál er að þessu leyti til. Auðvitað geta ekki allir þingmenn mætt, 63 talsins, til að ljúka slíku máli þegar þarf að klára einhver atriði á vegum framkvæmdarvaldsins. Til þess erum við með ákveðna einstaklinga sem hafa umboð löggjafarvaldsins, starfa í umboði meiri hluta þess, til þess að ljúka slíkum málum. Síðan reynir á hvort meiri hluti er fyrir því í hverju einstöku tilviki. Þannig er nú bara okkar stjórnskipan.

Þess vegna leyfðum við dómsmrh. okkur, að fenginni niðurstöðu í ríkisstjórn, að skrifa undir þessa yfirlýsingu og erum að efna hana núna með framlagningu þessara frv. Þannig er nú það mál vaxið.

Síðan er spurningin þessi: Er réttlætanlegt að taka þennan hóp út úr, lögreglumennina, og bæta aðstöðu þeirra að þessu leyti til með þeim hætti sem hér er verið að leggja til? Auðvitað má um það deila. Auðvitað hefur það staðið í mönnum í nokkur ár, allan þann tíma sem lögreglumenn hafa haft uppi þessa kröfu, hvort þetta væri réttlætanlegt bæði gagnvart þeim en líka gagnvart öðrum.

En niðurstaðan varð sú, m.a. vegna þess sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði áðan um eðli starfsins og þær breytingar sem á því hafa orðið, að þetta væri réttlætanlegt vegna þess að ekki væri lengur eðlilegt að menn á þessum aldri gegndu þessum erfiðu störfum, ekki síst með tilliti til þess hvernig mál hafa þróast hér, því miður, í þjóðfélaginu, en einnig með hliðsjón af því sem tíðkast í nálægum löndum að því er varðar eftirlaunarétt lögreglumanna.

Þetta er þetta tiltekna mál. Því fylgir ákveðinn kostnaður eins og ég gat hér um. Hann er rakinn í kostnaðarumsögn fjmrn. Erfitt er að meta hann vegna þess að ekki er nákvæmlega vitað hversu marga menn það muni eiga við á ári hverju. Talið er að næstu fimm árin verði þetta kannski 30--40 milljónir á ári, en gæti farið upp í 100 einhver árin, að meðaltali kannski 70--80 milljónir næstu 20 árin. Vissulega eru þetta háar upphæðir. Ég dreg ekki úr því.

Vissulega er skuldbindingin mikil í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hv. þm. Pétur Blöndal þreytist ekki á að tala um það, hvorki í þingsalnum né á öðrum vettvangi og það er bara gott að halda mönnum við það efni og gera mönnum ljóst að þarna eru alvöruskuldbindingar á ferð sem einhver verður að borga. En það er ekki rétt og ekki sanngjarnt að tala alltaf um þetta mál eins og ekkert hafi verið í því gert. Ég leyfi mér bara að minna á þær breytingar sem forveri minn, Friðrik Sophusson, beitti sér fyrir að því er varðar lífeyrismál opinberra starfsmanna, með lögunum sem hérna er lagt til að gerð verði breyting á, lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem komið var upp sérstakri A-deild sem á að standa undir sér. Skuldbindingarnar sem hv. þm. nefnir, 170 milljarðar, tilheyra allar eldri tíð, þ.e. B-deild, og öðrum deildum frá eldri tíma, Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga o.s.frv. Það er því búið að koma þessu þannig fyrir að iðgjöldin í dag, frá árinu 1997, standa undir þeim skuldbindingum sem verða til hjá fólki sem hefur störf hjá ríkinu og er í A-deildinni. Hins vegar er svo þessi gamli vandi. En forveri minn beitti sér jafnframt fyrir því að þessi vandi var tekinn upp úr kafinu og er núna orðinn öllum sýnilegur. Hann er ekki lengur einhver stærð sem menn bara yppta öxlum út af og hugsa með sér að syndaflóðið komi eftir okkar daga, að syndaflóðið komi bara einhvern tímann þegar við verðum öll löngu hætt í pólitík. Menn hafa reiknað þetta út. Það liggur fyrir hvað þetta er. En það sem meira er --- og það vil ég eigna sjálfum mér, ráðherrastarfi mínu --- að byrjað er að borga inn á þessar skuldbindingar. Það hefur verið gert núna í nokkur ár af lánsfjárafgangi ríkissjóðs svo nemur tugum milljarða króna. Mig minnir að það sé núna uppreiknað með vöxtum yfir 40 milljarðar sem við höfum lagt í þetta dæmi á undanförnum árum. Og erum að halda því áfram vegna þess að vandinn sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið að benda okkur á er raunverulegur og ef við gerum þetta ekki þá fáum við þetta allt í bakið sem kröfu á ríkissjóð eftir tiltölulega fá ár, 10--15 ár, með þeim hætti að ríkissjóður yrði þá að borga beint inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins til að standa undir greiðslum á þeim tíma, lífeyrisgreiðslunum sem þá féllu til. Þá þyrfti ríkissjóður að fara að borga beint lífeyrisgreiðslurnar sem lífeyrisþegarnir eru að fá. Þetta er með öðrum orðum mjög þekkt vandamál og hefur legið fyrir núna í nokkur ár. En það er líka rétt sem hv. þm. sagði, að skuldbindingarnar hafa verið að aukast vegna þess að það hefur verið flutt úr yfirvinnu og öðrum greiðslum, m.a. með svokölluðum aðlögunarsamningum, yfir í dagvinnulaunin sem lífeyrisgreiðslur reiknast af. Þetta er allt saman rétt og þetta hefur auðvitað stórhækkað skuldbindinguna.

En ef vel tekst til í ríkisfjármálunum og ef við náum vopnum okkar með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum, getum haldið áfram og fengið frið til þess að grynnka á þeirri súpu sem þarna er, þá mun okkur takast að komast fyrir vandamálið áður en það brestur á sem krafa þess efnis að ríkissjóður greiði lífeyrisskuldbindingarnar beint. Ég held að það sé sameiginlegt áhugamál og hagsmunamál okkar allra hér, hvar sem við stöndum í flokki og hvaða skoðun sem við höfum á opinberum rekstri og öllu mögulegu af því tagi, að koma í veg fyrir að sú staða komi upp. Þess vegna höfum við verið að gera þetta.

Við gerðum meira að segja samning við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna um þessar aukagreiðslur, þessar viðbótargreiðslur. Hann er að vísu þess eðlis að ríkið ræður því hvort það innir þessar greiðslur af hendi. Það er ekki bein krafa eða skuldbinding að gera það. Hitt er alveg skýrt að bakábyrgð ríkissjóðs er þarna slík að allt sem gert verður til þess að grynnka á henni getur ekki orðið nema til góðs. Þessu hef ég leyft mér að beita mér fyrir. Það er nauðsynlegt að menn hafi þetta í huga þegar þeir eru að tala um þann mikla vanda sem er í þessu kerfi. En það er ekki sanngjarnt að tala um þennan vanda eins og hann sé bara nýr. Það sem er nýtt í þessu, tiltölulega nýtt, er að menn eru farnir að taka á þessum vanda. Menn fóru í að gera hann gegnsæjan í tíð forvera míns, fóru í að girða fyrir að hann magnaðist eins og áður var á ári hverju og það held ég sé hið besta mál.

Að öðru leyti vil ég þakka þeim sem hafa lýst yfir stuðningi við það frv. sem hér er til umræðu, en einnig öðrum sem hafa talað hér almennt um þessi mál. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða þessi mál og reyna að átta sig á umfangi þeirra og kjarna eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert og flestum okkar betur því hann skilur þessi mál mjög vel enda er þetta á hans sérfræðisviði. En mér finnst hann gera of mikið úr því áhyggjuefni sem þetta er miðað við það sem verið er að gera til þess að reyna að leysa þennan vanda.