Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:46:14 (4829)

2002-02-18 16:46:14# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Stjórnvöld standa reglulega frammi fyrir ákveðnum vanda. Eitt sinn voru það framhaldsskólakennarar. Það var samið við þá, kostaði fimm milljarða kr. Síðan voru það barnaskólakennarar, verkfall, samið við þá, kostaði 23 milljarða kr. Og svo framvegis. Skuldbindingar opinberra starfsmanna hafa hækkað um fimm milljónir kr. á hvern einasta starfandi ríkisstarfsmann á síðustu fimm árum. Um fimm milljónir kr. hefur nettóeign þessa fólks aukist --- á hvern einasta ríkisstarfsmann.

Nýtt kerfi var tekið upp. Í B-deildina voru sett öll gömlu réttindin og þar hafa þau vaxið, eins og ég nefndi, upp í 170 milljarða ógreidd. Í A-deildina átti að fara iðgjald sem stendur undir lífeyrisgreiðslum, reyndar breytilegt. Ef ávöxtun sjóðsins er ekki nægileg á iðgjald ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja að hækka, þ.e. skattgreiðenda.

Hér er verið að búa til nýjan vanda, herra forseti, af því að nú koma upp ný tilfelli. Lögreglumenn fara í verkfall eða aðrir fara í verkfall, t.d. grunnskólakennarar, og krefjast þess sama og lögreglumenn hafa fengið. Það er verið að gefa fordæmi. Verið er að grafa undan því kerfi sem menn eru nýbúnir að laga. Og það versta við þetta allt saman er að þetta er meira og minna ógreitt, herra forseti. Þetta er ógreitt. Skattgreiðendur eiga eftir að greiða þetta.

Og það allra versta er að opinberir starfsmenn kunna ekki að meta þetta. Þeir vita ekki hvers virði réttindi þeirra hjá sjóðnum eru. Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki sé kominn tími til að upplýsa ríkisstarfsmenn sem aðra landsmenn um verðmæti réttinda þeirra hjá lífeyrissjóðunum þannig að þeir viti hvað þeir eiga, hver og einn?