Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:48:55 (4831)

2002-02-18 16:48:55# 127. lþ. 79.11 fundur 493. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (lögreglumenn) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessa afstöðu. Maður verður mjög mikið var við að opinberir starfsmenn, hvort sem um er að ræða kennara, lögreglumenn, fangaverði eða bara hvern sem er, eru að bera laun sín saman við laun á almennum markaði, þ.e. greidd laun eða umsamin laun. Þeir gleyma þessum lífeyrisskuldbindingum sem er mjög veigamikið atriði í þeim samanburði. Fólk hefur bara enga forsendu til að meta það, það hefur ekki hugmynd um hvers virði þessi réttindi eru í dag.

Það er búið að fella fyrir mér aftur og aftur tillögu um að lífeyrissjóðunum sé gert að upplýsa fólk um þessi réttindi. Það má ekki í dag. Það má ekki upplýsa sjóðfélagana um verðmæti réttinda sinna. (Gripið fram í.) Um verðmæti réttindanna. Það má ekki, það hefur verið fellt fyrir mér á Alþingi aftur og aftur. En nú heyri ég að þarna er orðin breyting á því hæstv. fjmrh. fellst á að skoðað verði að upplýsa fólk um þessi réttindi. Ég tel mjög mikilvægt að menn hafi til hliðsjónar hvaða réttindi þeir hafa til viðbótar við útgreidd laun.