Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:50:34 (4832)

2002-02-18 16:50:34# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:50]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og lögreglulögum, nr. 90/1996. Hér er um að ræða breytingar á ákvæðum laganna sem lúta að nokkrum aðgreindum tilvikum og má draga efnisatriði frv. saman í eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi er lagt til að við 95. gr. almennra hegningarlaga bætist ný málsgrein sem veiti aukna refsivernd fyrir ógnun eða valdbeitingu gagnvart erlendum sendierindrekum hér á landi, svo og fyrir eignaspjöllum sem unnin eru á sendiráðssvæði eða hótunum um að fremja slík eignaspjöll.

1. gr. frv. stefnir þannig að því að rýmka vernd gildandi 95. gr. laganna sem leggur refsingu við því að smána opinberlega eða hafa annars í frammi skammaryrði eða aðrar móðganir í orðum eða athöfnum við starfsmenn erlends ríkis sem staddir eru hér á landi. Getur t.d. skemmdarverk verið framið í sendiráði eða á sendiráðslóð þótt ekki sé afdráttarlaust um smánun að ræða gagnvart viðkomandi ríki eða tilteknum starfsmönnum þess. Er eðlilegt að kveða skýrar á um þetta atriði í refsilögum, einkum í ljósi þjóðréttarlegra skuldbindinga samkvæmt Vínarsamningi um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, og voru sérstök lög, nr. 16/1971, sett af því tilefni.

Í öðru lagi er lagt til í 2. gr. frv. að nýju ákvæði verði bætt við lögreglulögin um heimildir lögreglu til að halda upp allsherjarreglu á opinberum fundum. Þegar uggvænt þykir að óspektir verði á fundinum getur lögregla bannað að menn hylji andlit sitt í því skyni að hindra að kennsl verði borin á þá.

Í nágrannaríkjum okkar hefur þróunin því miður orðið sú að óeirðir brjótist út á fjölmennum mótmælafundum þar sem framin eru alvarleg brot, svo sem eignaspjöll, ofbeldisbrot, einkum atlögur gegn lögreglu, og ekki hefur verið unnt að bera kennsl á ódæðismennina sökum þess að þeir hafa verið grímu- eða hettuklæddir. Þrátt fyrir að alvarleg tilvik af slíkum toga hafi ekki enn komið upp á Íslandi er óvarlegt að ætla að þróunin muni verða hér á annan veg en í nágrannalöndunum. Því er nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Með aukinni þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi sem leiðir m.a. til fjölgunar alþjóðlegra funda hér á landi og með opnun landamæra í Evrópu er nauðsynlegt að löggæsluyfirvöld séu í stakk búin til að takast á við slíkar aðstæður.

Í þessu frumvarpsákvæði er ráðgert að lögreglan geti gefið fyrirmæli um bann við að hylja andlit sitt, hvort heldur fyrir fram ef aðstæður eru þannig að verulegar líkur eru taldar á óeirðum eða þegar óspektir hafa brotist út. Í frv. er lagt til að það teljist refsivert brot á lögreglulögum að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu um bann við að hylja andlit sitt og að slíkt brot varði sektum.

Ég undirstrika að þessi heimild á að miðast við þær aðstæður þegar líklegt þykir að óspektir brjótist út í tengslum við mótmælafund eða annan slíkan viðburð. Um er að ræða varúðarúrræði sem getur reynst mikilvægt til að fyrirbyggja að alvarleg átök eigi sér stað. Nágrannaríki okkar hafa sambærileg ákvæði í löggjöf sinni og ganga sum hver lengra en gert er ráð fyrir í þessu frv., svo sem Danir sem lögfest hafa almennt bann í hegningarlögum við því að menn hylji andlit sitt á mótmælafundum í því skyni að ekki verði á þá borin kennsl. Það liggur því fyrir að ákvæðið í frv. takmarkar ekki rétt manna til að hylja andlit sitt við aðrar aðstæður og getur því ekki talist takmarka tjáningarfrelsi manna. Því er einvörðungu beint gegn óþekkjanlegum einstaklingum sem talið er að hætta geti stafað af.

Í 3. gr. frv. er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lögreglulögin sem kveður á um að starfslokaaldur lögreglumanna verði lækkaður í 65 ár. Nauðsyn þess að lækka aldurshámark lögreglumanna hefur verið til umræðu um langt skeið enda er meðalaldur lögreglumanna í nokkrum lögregluliðum hér á landi orðinn hár, eða kringum 50 ár. Þessi lagabreyting er lögð til í samræmi við samkomulag sem náðist við gerð kjarasamninga við lögreglumenn sumarið 2001. Með kjarasamningnum fylgdi sérstök yfirlýsing frá dómsmrh. og fjmrh. þess efnis að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að lagt yrði fram frv. um breytingu á lögreglulögum þar sem fram kæmi að lögreglumenn skyldu leystir frá embætti sínu þegar þeir eru orðnir fullra 65 ára eða fyrr eftir því sem dómsmrh. ákvarðar með reglugerð.

Einnig kveður yfirlýsingin á um að stefnt skuli að því að leggja fram frv. um breytingu á lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, þar sem reglum um útreikning lífeyris til lögreglumanna sem látið hafa af störfum við 65 ára aldur verði breytt. Hefur frv. þess efnis verið unnið í fjmrn. og mælti hæstv. fjmrh. einmitt fyrir því áðan. Að mínu mati er hér um að ræða mikið framfaraspor fyrir lögregluna í landinu sem mikilvægt er að nái fram að ganga.

Loks eru í 4. gr. frv. ráðgerðar breytingar á 38. gr. lögreglulaganna varðandi val nema í Lögregluskóla ríkisins. Er annars vegar lagt til að inntökuskilyrði verði gerð sveigjanlegri en nú er. Reynslan hefur sýnt að þau eru að sumu leyti of þröng en að öðru leyti of opin. Í stað þess að leggja fortakslaust bann við því að umsækjendur hafi hlotið dóm fyrir brot á almennum hegningarlögum er lagt til nýtt orðalag í b-lið 1. mgr. um að þeir megi ekki hafa gerst brotlegir við refsilög, en það skilyrði er gert undanþægt ef brot er smávægilegt og langt um liðið síðan það var framið. Með þessu nær skilyrðið einnig til sérrefsilagabrota sem geta verið af jafnalvarlegum toga og hegningarlagabrot en hægt verður að líta fram hjá smávægilegum brotum eins og minni háttar umferðarlagabrotum. Hins vegar er lagt til að ákvarðanir valnefndar um val nemenda inn í skólann verði endanlegar.

Valnefnd Lögregluskólans er fjölskipað stjórnvald með fulltrúum Lögregluskólans, dómsmrn., Sýslumannafélagsins, ríkislögreglustjóra og Landssambands lögreglumanna. Hún velur nemendur inn í skólann úr hópi hæfra umsækjenda sem staðist hafa inntökupróf, m.a. með viðtölum. Í ljósi þess að örðugt er um endurskoðun æðra stjórnvalds á slíku mati er eðlilegt að ákvarðanir nefndarinnar verði að þessu leyti endanlegar. Eftir sem áður er ráðgert að aðrar ákvarðanir valnefndarinnar, t.d. um beitingu almennra skilyrða fyrir inngöngu í skólann, verði kæranlegar.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.