Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 16:59:41 (4834)

2002-02-18 16:59:41# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði í framsögu minni áðan er þetta mál búið að vera lengi til umræðu og það hefur verið ósk lögreglumanna að á þessu máli verði tekið, að þeir gætu komist fyrr á eftirlaun. Það eru auðvitað ýmsar ástæður fyrir því, m.a. erfiðara starfsumhverfi. Ýmsar breytingar hafa orðið í þjóðfélaginu sem gera það að verkum að störf lögreglumanna eru orðin erfiðari og hættulegri.

Einnig má benda á að í eldri kjarasamningum lögreglumanna var gengið út frá því að þegar menn hefðu náð 55 ára aldri þyrftu þeir ekki lengur að ganga vaktir, eins og það er orðað. Þetta er auðvitað atriði sem er mjög mikilvægt að hafa í huga vegna þess að störf löggæslunnar eru fyrst og fremst skipulögð út frá vöktum. Þess vegna liggur það fyrir að ef stór hópur í lögregluliði þarf ekki að ganga slíkar vaktir getur orðið mjög erfitt fyrir menn að skipuleggja löggæslu í umdæminu.

Ég tel eðlilegt að taka þannig til orða í frv. að menn ,,skulu leystir frá embætti``. Þeir geta auðvitað snúið sér að öðrum störfum ef þeir kjósa að gera það og við vitum að frá nágrannaríkjum okkar eru fordæmi um að menn geti hætt jafnvel miklu fyrr, og hafa þá jafnvel snúið sér að öðrum störfum.