Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:11:58 (4839)

2002-02-18 17:11:58# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:11]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að grímu- og hettubann er í sjálfu sér ekki óeðlilegt á viðsjárverðum tímum ef mikið liggur við. Ég hef ekki orðið vitni að því að slíkt hafi gerst hér, varla að fólk setji á sig trefla. Þetta með málninguna hefur mér fundist annað.

Þetta er ákveðin heimild. Við sjáum hins vegar ýmsar mótmælagöngur þar sem fólk ber grímur sem eru oft eftirmyndir ráðamanna o.s.frv. Ekki þarf að vera hætta í því fólgin. Þetta fer auðvitað eftir eðli þeirra mótmæla eða óeirða sem eiga sér stað. Það verður alltaf að sjá það í því samhengi. Ég lít svo á að það þurfi alltaf að vera af tiltölulega alvarlegum toga ef grípa þarf inn í út frá þessum forsendum og vona að slíkt gerist ekki.