Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:24:24 (4843)

2002-02-18 17:24:24# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Menn telja sig ekki vera á gráu svæði í þessu frv. Það er einmitt fjallað mjög ítarlega um þessi mannréttindaákvæði í grg. af ásettu ráði svo að ekki fari á milli mála að hér sé rétt staðið að verki.

Það er ekki að ástæðulausu að nágrannaþjóðir okkar, Norðurlandabúar, Bretar, Þjóðverjar og Hollendingar, hafa sambærileg ákvæði í lögum. Reynsla þeirra er sú að afar mikilvægt sé að koma í veg fyrir að menn skáki í skjóli þess að ekki sé hægt að bera á þá kennsl við þær aðstæður sem hér er um að ræða, ekki síst vegna þess að þekkt er að sjálfstraust óeirðarseggjanna eykst eftir því sem þeir telja minni líkur á að lögreglan geti tekið þá höndum. Við vitum að þótt margir sem taka þátt í mótmælafundum hafi ekkert ófriðlegt í hyggju á það alls ekki við um alla. Sumir mæta til leiks beinlínis til að valda usla. Eins og dæmin sanna frá mótmælum í Gautaborg, Genúa og víðar geta afleiðingarnar orðið skelfilegar ef ekki tekst að halda þeim í skefjum.

Rétt er að geta þess að Svíar lögfestu einmitt sambærilegt ákvæði og hér er til umfjöllunar eftir atburðina í Gautaborg sem ég vænti að mönnum séu enn í fersku minni. Reynslan sýndi þeim að á slíkri reglu væri þörf.