Almenn hegningarlög og lögreglulög

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:34:46 (4849)

2002-02-18 17:34:46# 127. lþ. 79.8 fundur 494. mál: #A almenn hegningarlög og lögreglulög# (sendierindrekar, grímubann, starfslok lögreglumanna o.fl.) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:34]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta frv. Ég ætlaði raunar ekki að orðlengja þessa umræðu frekar. Ég veit að frv. fær góða skoðun í hv. allshn.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson velti því fyrir sér hér áðan hvort slíkt ákvæði í lögreglulögum eða hegningarlögum hefði hugsanlega getað haft áhrif á fundinum í Gautaborg þar sem þessar miklu óeirðir komu upp. Hann dró mjög í efa að það hefði skipt nokkru máli.

Nú er vitað að þeir hópar sem stunda svona skipulagða starfsemi, hleypa upp fundum, fremja eignaspjöll og annað, grípa einmitt oft til þeirra ráða að vera hettuklæddir eða þannig til fara að þeir þekkist ekki og þeir eru oft inni í miðjum hópnum og stjórna í raun atburðum. Það er mjög mikilvægt fyrir lögregluna að geta náð til þessara manna til þess að koma í veg fyrir að hugsanlega friðsamlegur mótmælafundur endi með þeim ósköpum sem við höfum séð í löndunum í kringum okkur með tilheyrandi eignaspjöllum og öðru. Og það er ekki síst þess vegna sem það er svo mikilvægt fyrir lögregluna að hafa þessa heimild skýra í lögum.

Ég tek fram að við erum hér að tala um fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég held að frv. sé alveg skýrt hvað það snertir. Mjög ítarleg greinargerð fylgir með því. Þar er m.a. talað um ýmis mannréttindaákvæði, mannréttindasáttmála Evrópu, stjórnarskrána o.s.frv. og ég vona svo sannarlega að þetta mál fái góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi.