Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:24:35 (4859)

2002-02-18 18:24:35# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 797. Um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.

Frv. er lagt fram í því skyni að hækka fjárhæð gjalds sem innheimt er vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum í sláturhúsum. Ef frv. þetta verður að lögum hefur það í för með sér breytingar á 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, en í ákvæði þessu er lögboðin gjaldtaka fyrir heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum.

Gjaldinu er ætlað að standa straum af raunkostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum í sláturhúsum og greiðist af sláturleyfishöfum samkvæmt áætlun sem byggð er á innvegnu magni kjöts í afurðastöð. Endanlegt uppgjör gjaldsins fer síðan fram fyrir 20. febrúar ár hvert í samræmi við rauntölur innvegins magns kjöts í afurðastöð á gjaldárinu samkvæmt upplýsingum Bændasamtaka Íslands.

Gjaldið rennur í svonefndan Eftirlitssjóð sem er í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Fjárhagsstaða sjóðsins er mjög erfið og hefur hann á undanförnum árum verið rekinn með miklum halla. Ástæður eru margar, t.d. hafa tekjur sjóðsins orðið minni en upphaflega mátti gera ráð fyrir. Áður greiddu sláturleyfishafar eftirlitsaðila beint fyrir kostnaðinn við eftirlitið. Nauðsynlegt var talið að breyta lögunum á þann veg að eftirlit í sláturhúsum og þar með innheimta gjaldsins yrði framvegis á hendi opinberra aðila til þess að viðhalda heimild til útflutnings sláturafurða frá íslenskum sláturhúsum til Evrópusambandsins og Bandaríkja Norður-Ameríku. Heimildin til gjaldtökunnar hefur aldrei verið fullnýtt. Einnig hafa útgjöld Eftirlitssjóðsins orðið mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir og stafar það að miklu leyti af hækkunum á gjaldskrá dýralækna fyrir eftirlitið en hún er staðfest af landbúnaðarráðuneytinu.

Lagt er til að gjald vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum hækki úr 2,50 kr. í 3,46 kr. á kíló. Útreikningur á nýrri fjárhæð gjaldsins er miðaður við að unnt verði að mæta verðhækkun kostnaðarliða og öðrum fyrirsjáanlegum gjöldum vegna rekstrar og starfsemi sjóðsins. Fjárhæð gjaldsins er miðuð við kostnaðarverð. Í greinargerð með frv. er að finna umfjöllun um hvernig fjárhæðin, 3,46 kr., er fundin. Enn fremur er lögð til sú breyting að gjaldfjárhæðin verði föst fjárhæð í stað þess að hún var áður valkvæð og miðuð við allt að 2,50 kr., en með því er komið í veg fyrir að fjárhæð gjaldsins verði háð ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.

Í fskj. með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa til hennar.

Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemdum við það.

Hæstv. forseti. Hér er um að ræða óhjákvæmilega hækkun á gjaldtöku þeirri sem lögboðin er í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, en staða Eftirlitssjóðsins í dag er afar erfið og verður hann ekki rekinn áfram á sömu forsendum. Ég á því ekki annarra kosta völ en að leggja til þá hækkun á gjaldtöku í sjóðinn sem lögð er til með frv. þessu og vona ég að sjóðnum verði með þeim hætti tryggt nægilegt rekstrarfé á komandi árum og að ekki þurfi að koma til frekari hækkana á þessari gjaldtöku í náinni framtíð. Þó er það svo þegar þarf að koma með svona einstök mál inn í þingið, að þá ræður auðvitað þróunin því, bæði þróun á launamarkaði, verðbólgustig o.s.frv., hvernig þetta stendur, enda hefur ekki verið beðið um hækkun á þessum gjöldum síðustu fimm til sex ár.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. til umfjöllunar.