Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 18:56:27 (4864)

2002-02-18 18:56:27# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál, stórt og ekki stórt, ekki stórt í sniðum en stórt samt að sumu leyti.

Ef ég fer yfir það sem hér hefur komið fram vil ég auðvitað hafa sagnfræðina rétta því að hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir fór ekki rétt með hana. Ég hef aldrei flutt þetta mál áður. Ég var auðvitað þingmaður og er það enn en ég hafði þann starfa hér að vera í landbn. og fleiri nefndum. Þá hafði maður þeim skyldum að gegna að taka við frumvörpum ráðherra og þingmanna og láta fjalla um þau. Þetta var ekkert baráttumál af minni hálfu á þeim tíma fremur en það er nú. En ég þekki það mikið til í hagfræði eða í viðskiptum --- ég veit ekki hvort ég á að segja --- að ef ekkert kemur inn í sjóð sem lögum samkvæmt skal notaður í ákveðnar þarfir heldur fer bara út úr honum endar með því að hann verður gjaldþrota. Og þannig er þetta auðvitað. Margt hefur breyst í landinu til hækkunar á þessum fimm, sex, sjö árum. Launakjör hafa stórlega hækkað, lífskjör íslenskrar þjóðar hafa batnað um ein 30% frá því að Framsfl. kom í ríkisstjórn á ný þannig að við, stjórnarliðarnir í þessum tveimur stjórnarflokkum, erum auðvitað afar stolt af síðustu árum, hvernig tekist hefur að koma í veg fyrir það mikla atvinnuleysi sem hér var ríkjandi og að bæta lífskjör.

Líklega er það svo að laun dýralækna og annarra hafa einnig hækkað á þessu tímabili sem gerir það að verkum að þessi langa kyrrstaða á gjaldinu gengur ekki upp lengur. Auðvitað stend ég þannig frammi fyrir því sem ráðherra að verði sjóðurinn gjaldþrota eða tæmist verð ég auðvitað að grípa til einhverra annarra úrræða. Og ég hygg að Ríkisendurskoðun, sem er armleggur þingsins og ég hef margfarið eftir, muni ekki sætta sig við það að hann verði lengi rekinn sem gjaldþrota sjóður eða sjóður sem greitt er meira úr en kemur í hann.

Þetta erfiða mál er því þannig vaxið að gjaldtakan dugar ekki lengur til að standa straum af þessu mikilvæga eftirliti. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni og reyndar fleirum að það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að þetta eftirlit sé fyrir hendi og að það sé hlutlaust og tryggi gæði vörunnar til neytenda, hvort sem þeir eru hér eða annars staðar í veröldinni.

Þannig er þessi staða núna ef ég fer yfir hvernig þetta hefur verið. Heimildin hefur hins vegar aldrei verið fullnýtt eins og hér hefur komið fram. Á árinu 1995 var innheimta gjaldsins miðuð við 2 kr. á hvert kíló. Það er ekki víst að talan sem nú er verið að nefna sé í rauninni hærri en sú tala var 1995. Á árunum 1996--1997 var hún 2,25, og á árinu 1998 2,40 og í lögum nr. 96/1997 sem felldu úr gildi lög nr. 30/1966, með síðari breytingum, var fjárhæðin óbreytt, þ.e. 2,50 á kíló, án vísitölutryggingar.

[19:00]

Eins og hér hefur komið fram hafa útgjöld Eftirlitssjóðs orðið meiri. Það stafar af ýmsum hækkunum sem orðið hafa á þessu tímabili og kannski breyttri stöðu hjá allri hinni íslensku þjóð á stuttum tíma. Þannig er óhjákvæmilegt fyrir mig að koma með þetta leiðinlega mál fyrir þingið og biðja þingið og landbn. að fara yfir það. Málið vekur upp margar spurningar og nefndin mun auðvitað fjalla um það málefnalega frá öllum hliðum og hvernig hægt er að mæta því.

Hér hafa afurðastöðvar landbúnaðarins og þróun þeirra komið til umræðu. Ég ætla svo sem ekki að blanda því máli mikið í þá umræðu. Þar er mikil þróun í gangi og hefur farið fram mikil hagræðing, hvort sem það eru mjólkurbúin eða sláturhúsin. Þeim hefur fækkað gríðarlega á stuttum tíma. Ætli það sé ekki slátrað, ef við tökum sauðfjársláturhúsin, í um 17 sláturhúsum í dag. Þau voru fyrir stuttu um 40 eða 50 og menn segja að þeirri þróun sé ekki lokið. Ég vil þó taka undir með hv. þm., ekki síst hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, að mikilvægt er að þessi þjónustufyrirtæki séu nánast í hverju héraði og flutningar þurfi ekki að vera lengri þess vegna. Hins vegar hefur það gerst samhliða að vegirnar hafa batnað mikið og flutningatæknin breyst. Vagnarnir eru stórir og fara betur með sauðfé og stórgripi en áður. Þannig hefur líka átt sér stað mikil þróun á stuttum tíma.

Menn mega ekki gleyma því að sláturleyfishafarnir hafa ekki búið við betri stöðu en svo að þeir hafa verið að tapa tölunni á síðustu 15--20 árum. Sláturhúsin og kjötvinnslurnar hafa orðið gjaldþrota í höndum þeirra og þetta hefur verið mjög erfiður rekstur. Það er auðvitað staða dagsins í þessum atvinnurekstri. Hann er erfiður en fyrst og fremst er hann auðvitað á ábyrgð bændanna. Þeir þurfa að standa saman. Ég álít að bændur þessa lands, bændur samtímans þurfi að eiga þessi fyrirtæki og reka þau. Ég tel það mjög mikilvægt. Þeirra stóra verkefni er að fara yfir hvernig hægt er að ná tökum á þessum málum, efla sláturhúsin og afurðastöðvarnar til að þær þjóni í allar áttir, bændum og neytendum og skili af sér sem bestri vöru.

Það kann vel að vera, ég get alveg tekið undir það, erfitt að koma fram með svona frv. þegar allir eru að berjast við rauð strik og vísitölur. Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikið á sig til að styðja ríkisstjórnina í hennar áformum, svo kjarasamningar standi og rauðu strikin haldi. Undir slíkum kringumstæðum er þetta auðvitað erfitt en þegar saga þessa máls er skoðuð sjá allir að þetta hefur staðið, eins og ég hef rakið hér, kyrrt um langa hríð.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson ræddi einnig um sláturhúsin. Ég tek það fram, eins og ég kallaði fram í hjá hv. þm., að þetta á auðvitað við um allt kjöt af hvaða tegund sem það er. Þetta er kostnaðurinn við að tryggja þessa vöru sem er mjög mikilvægt út af samkeppnisstöðu okkar.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson ræddi um húsin, hvort þau gætu verið af tveimur tegundum. Vissulega er það svo. Þannig er það í Evrópu og auðvitað er það þannig hér. En þó er mikilvægt að gera mjög strangar kröfur til þessara húsa og að þau standist gagnrýni. Það er erfitt að hafa margar tegundir eða misvel stödd hús til að þjóna því mikilvæga hlutverki að skila góðum afurðum. Þróunin stefnir auðvitað í þá átt að ákveðnar kröfur verða gerðar til þessara afurðastöðva, um að þær séu nokkuð fullkomnar. Nú hygg ég að ein fimm útflutningshús séu hér á landi hvað sauðféð varðar. Við erum með önnur tólf sem ekki standast þær kröfur en eru eigi að síður ekki með verri vöru. Það er verið að berjast við kröfugerðir frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum um að þetta og hitt þurfi að vera til staðar. Við erum þar að reyna að skapa okkur markað og auðvitað fylgjum því.

Hv. þm. kom hér inn á heimaslátrun, sem ekki er lögleg. Hins vegar bannar enginn mönnum að reka lítið sláturhús, menn geta það, mönnum er það frjálst. Ég get auðvitað tekið undir það með hv. þm. að við þurfum að vega og meta alla þessa þróun. Við vitum að íslenskir bændur eru lykilmenn í íslenskri ferðaþjónustu. Það tíðkast auðvitað, þegar við komum til annarra landa, að menn bjóða ekki bara upp á vínið sitt, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hefur nú lagt til að menn fái að framleiða, heldur afurðir sínar á allan hátt og þess vegna heimareykt kjöt. Mikilvægast er, ef menn fara út í það, að slík hús í einstaklingseigu sem þjóni einum bæ eða nokkrum saman standist heilbrigðiskröfur og þær kjötvinnslur sem þannig kæmu upp til að búa til nýja markaði og þjóna. Ég geri mér grein fyrir því að bændur kunna afar vel til verka hvað verkun á matvælum varðar. Þeir búa þar yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu. Bændafólkinu er vel treystandi í þeim efnum en það verður auðvitað að lúta heilbrigðisreglum og öllum þeim reglum sem settar eru gagnvart matvælum. Ég tel því ekki að hv. þm. hafi verið að tala af sér þegar hann minntist á þetta atriði. Vissulega eru margar þessar afurðir sem maður fær í sveitinni íslenskur og góður matur sem manni finnst smakkast afar vel. Menn hafa heimild til þess að fella gripi í eigin þágu og verka heima, þannig er það. Þeir hafa aftur á móti ekki heimild til að selja það kjöt út á markað en slíkt yrði að gerast í litlum húsum sem fengju löggildingu til þeirra hluta.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom hér síðan að stóru máli, sem alltaf getur komið upp, mistökum hjá Evrópusambandinu og því að reglurnar dugi ekki alltaf. Við þekkjum að reglurnar duga ekki alltaf en þó duga þær stundum og kannski oftar ef þær eru ekki of flóknar og menn ráða við þær.

Ég heyrði aðra sögu frá Evrópu ekki fyrir löngu síðan þar sem menn hafa núna reynt að styrkja sig á markaðnum og taka á kúariðuvandamálinu, treysta böndin við neytandann, setja strangar reglur um merkingar á gripum frá vöggu til grafar, eins og sagt er, þ.e. að neytandinn viti hvaðan varan kemur, frá haga til maga o.s.frv. Ég heyrði af nautgrip sem var felldur í Hollandi, skorinn í fjóra parta og sendur í fjögur lönd. Merkingarnar dugðu til að hægt var að kalla hann inn aftur af því að síðar kom í ljós að hann var sjúkur.

Þarna verðum við auðvitað að vera í fararbroddi án þess að setja of flóknar reglur. Við Íslendingar og íslenskir bændur verða auðvitað að halda því til haga að þeir eru með matvæli í fremstu röð. Þeir kunna að lesa og skrifa. Við verðum að geta sagt við neytandann, hvort sem hann er íslenskur, evrópskur eða bandarískur: Þetta er uppruni lambsins. Þetta er uppruni nautsins. Þetta er uppruni folaldakjöts sem þið eruð að fá. Þetta er sagan á bak við það, við þessar aðstæður lifði það o.s.frv.

Við verðum auðvitað að mæta þessum tíma og megum vara okkur neytendanna vegna að dragast hvergi aftur úr og vera áfram í fremstu röð með einfalt og gagnsætt kerfi.

Svo vil ég að lokum, hæstv. forseti, þakka þessa umræðu. Ég vænti þess að hv. landbn. fari yfir þetta mál og skoði það á allan hátt.