Eldi og heilbrigði sláturdýra

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 19:16:41 (4868)

2002-02-18 19:16:41# 127. lþ. 79.10 fundur 505. mál: #A eldi og heilbrigði sláturdýra# (hækkun gjalds) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[19:16]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað var þyngsta áfall sem sauðfjárframleiðslan hefur orðið fyrir þegar útflutningsbætur voru skornar af með einu handbragði fyrir rúmum 11--12 árum. Ég hefði ekki viljað vera sá landbrh. sem þá var að störfum. Það hefur auðvitað haft gríðarleg áhrif. Ein 3.000 tonn af lambakjöti voru þá í uppnámi. Greitt var mikið verð en ekki var samstaða í þinginu eða í þeirri ríkisstjórn sem þá starfaði um að halda þessum greiðslum áfram. Því fór sem fór og sauðfjárræktin lenti í miklum þrengingum.

Horfurnar núna eru að batna. Menn hafa haldið núna í sex, sjö ár innanlandsmarkaði sínum. Ég hef auðvitað áhyggjur af Goðamálinu og hvaða áhrif það hefur á markaðinn. Það hefur einhver áhrif. Menn þurfa því að halda mjög vel utan um sölumál sín. Menn eru að keppa á innanlandsmarkaði bæði við aðrar kjöttegundir og ekkert síður við alls konar innflutning þannig að það er mikið verk fyrir bændur að standa sig á markaðnum.

Ég nú hef enga trú á því að menn eigi að velta því upp að lambið sé dýr í útrýmingarhættu því að enn þá borðar þjóðin 25--26 kíló af lambakjöti. Enn þá finnst Íslendingum þetta besta kjöt sem þeir smakka. Hingað koma erlendir gestir sem finnst það verulega gott og komið hefur í ljós að þetta er eitt meyrasta og besta kjöt í veröldinni. Við eigum því markaðsmöguleika fyrir þetta kjöt á háu verði. Við verðum að þróa það í hægðum okkar og reyna að stækka markaðinn, halda honum hér innan lands og þróa það hægum og föstum skrefum. Við verðum að hafa tíma til þess. Það er erfitt en ég trúi á náttúru þessa lands, (Forseti hringir.) hæstv. forseti, í þessu efni og ekkert síður varðandi nautakjöt og kannski fleiri afurðir. Við eigum dálitla möguleika á að selja það á erlenda markaði, en ekki síst að halda innanlandsmarkaðnum.