Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:32:55 (4870)

2002-02-19 13:32:55# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er orðið gersamlega óþolandi hvernig ráðherrar fótumtroða stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna, misbjóða þeim og lítilsvirða þingið. Nú hefur hæstv. samgrh. haft einn mánuð til að svara fyrirspurn frá mér um starfslokasamninga Landssímans. Eftir einn mánuð kemur svarið, þ.e. að þinginu komi starfslokasamningar ekki við. Það er eins og eitthvað í þessum starfslokasamningum og því sem um er spurt þoli ekki dagsljós, alla vega virðist samviska hæstv. ráðherra ekki hrein í þessu máli vegna þess að rökin fyrir neituninni ganga ekki upp. Það er flúið í skjól hlutafélagalaganna og bent á að ráðherra megi ekki veita upplýsingar, geti þær skaðað hagsmuni félagsins.

Samkvæmt hlutafélagalögunum ákveður ráðherrann sjálfur, sem fer með 95% eignarhlut í félaginu, hvort upplýsingar sem um er spurt skaði hagsmuni félagsins. Ráðherra verður að upplýsa hvað það er í fyrirspurninni sem skaðar hagsmuni félagsins. Skaðar það hagsmuni félagsins, eins og um er spurt, hver ber ábyrgð á starfslokasamningum fyrrverandi forstjóra? Nei, auðvitað ekki. Skaðar það kannski hagsmuni félagsins að upplýst verði á þinginu hvort starfslokasamningur hafi verið gerður með vitund og vilja stjórnarinnar? Að sjálfsögðu ekki.

Hvað hefur ráðherrann að fela? Ég skora á ráðherrann að upplýsa hvað það er sem skaði stórlega hagsmuni félagsins vegna þess að ráðherrann er ella að misfara stórlega með vald sitt. Ég segi jafnframt, herra forseti, að forseti þingsins getur ekki setið afskiptalaus hjá meðan framkvæmdarvaldið tekur öll vopn úr höndum þingsins til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Forseti þingsins verður að bregðast við með því að tryggja betur stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna eins og bent var á af Páli Hreinssyni að rétt væri að gera í skýrslunni um starfsskilyrði stjórnvalda.

Það liggur fyrir frv. um það í þinginu og ég skora á hæstv. forseta að bregðast við og sjá til þess að það mál gangi hér fram.