Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:42:11 (4875)

2002-02-19 13:42:11# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það er ólíðandi hvernig komið er fram við þingið í hverju málinu á fætur öðru þar sem því er hafnað að þingmenn njóti stjórnarskrárvarins réttar síns á að fá upplýsingar.

Í þessu máli er eftirtektarvert að kíkja á þetta svar og hvernig það er saman sett. Fram kemur að við stofnun félagsins, hlutafélags um Landssíma Íslands, hafi öll stjórnsýslutengsl rofnað milli ráðuneytisins og félagsins. Þegar af þeim ástæðum og vegna hlutafélagalaga er ekki talið hægt að gefa þessar upplýsingar. En maður hlýtur að spyrja í þessu samhengi: Hvenær virka hlutafélagalögin og hvenær virka þau ekki? Í blöðunum í gær, í fjölmiðlum, kom fram að hæstv. ráðherra væri að gera prívatsamninga utan stjórnarfunda sem hafa ekkert með hlutafélagalögin að gera, eru gerðir algerlega utan laganna. Reyndar er það svo að hæstv. ráðherra hefur enga heimild til þess að gera slíka samninga, ekki nokkra. Hann hefur þar af leiðandi gengið á svig við hlutafélagalögin.

Það væri því gott, virðulegi forseti, að hér yrði upplýst: Í hvaða tilvikum gilda lögin? Er það aðeins þegar ekki er hægt að upplýsa þingið um það sem það óskar eftir? Er það bara í þeim tilvikum að það hentar?

Sá samningur sem hefur verið gerður og hefur verið upplýst um er brot á hlutafélagalögunum. Ég held að mikilvægt sé að það verði skilgreint í þaula og hæstv. ráðherra geri grein fyrir því hvenær fara á eftir lögunum og hvenær ekki. Það er ekki hægt að koma fram með svona upplýsingar meðan allt annað sem kafað hefur verið ofan í ber þess vott að lögunum hafi ekki verið fylgt.