Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:52:39 (4882)

2002-02-19 13:52:39# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. þingmanna liggur alveg ljóst fyrir að ekki stendur til að leyna neinum upplýsingum. Svar mitt til hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur felur í sér að brugðist er við löggjöf landsins. Eins og skýrt kom fram í skýrslu sem lögð var fram á 122. löggjafarþingi, 1997--1998, þá er málsmeðferð samkvæmt lögum sú sem kemur fram í svari mínu til hv. þm. Því liggur alveg ljóst fyrir með hvaða hætti við verðum að vinna.

Aðeins vegna þeirra orða sem hér voru höfð uppi um að samgrh. bryti hlutafélagalögin eða væri að reyna að skjóta sér í skjól við þau jafnframt þá er það auðvitað fjarri öllu lagi. Samgrh. sem fer með hlutabréf í Landssímanum hefur kosið stjórnarformann í því ágæta félagi sem fær laun fyrir þá vinnu, en vegna mikillar vinnu sem hann lagði fram fyrir félagið til viðbótar við hið venjulega starf sem stjórnarformaður, þá varð það að niðurstöðu að fyrir það yrði greitt sérstaklega. Til þess að hafa þá hluti alla í góðu lagi var haft samráð við Ríkisendurskoðun um með hvaða hætti það væri framkvæmt og tilmælum var beint með bréfi til forstjóra fyrirtækisins þannig að þeir hlutir væru allir uppi á borði. Því er ekki nokkurn hlut að fela.

Stjórn Símans hefur fjallað um það mál þó að það sé ekki liður í því sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fjallaði hér um í athugasemdum sínum. Hún er því hinn rétti vettvangur. Stjórn félagsins ber ábyrgð á rekstri félagsins og það hljóta hv. þingmenn allir að vera vissir um. (Gripið fram í: Allt í góðu lagi bara.)