Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:08:26 (4886)

2002-02-19 14:08:26# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Við sem teljum vafa leika á því að EES-samningurinn sé fullnægjandi til að tryggja hagsmuni Íslendinga í samskiptum við Evrópusambandið í framtíðinni erum gjarnan spurð að rökum fyrir þeirri fullyrðingu. Í mínum huga eru þau augljós. EES-samningurinn var gerður milli tveggja jafnrétthárra ríkjablokka og byggði á gagnkvæmum viðskiptalegum hagsmunum beggja aðila en EFTA-ríkin voru þá á mikilvægasta viðskiptasvæði Evrópusambandsins.

Þegar bróðurpartur þeirra, Austurríki, Svíþjóð og Finnland, tóku skrefið inn í ESB, féll gagnkvæmni samningsins um leið niður. Á næstu árum ganga 10 ný ríki til liðs við Evrópusambandið. Þá verða 25 ríki og 480 milljónir manna í sambandinu en aðeins þrjú ríki og tæpar 5 millj. í EES. Við munum glata verulegum hagsmunum af því þegar umsóknarríkin 10 ganga inn í Evrópusambandið, m.a. í formi þess að fríverslun við þau verður lögð niður. Ekki þarf að spyrja af örlögum samningsins ef Noregur, langstærsta stoð hans, tekur ákvörðun um að sækja um aðild eins og vaxandi áhugi er fyrir þar í landi. Eigum við Íslendingar að fljóta sofandi að feigðarósi í stað þess að horfast í augu við staðreyndir? Samningurinn er ekki jafnsterkur og áður og virðist ekki vilji fyrir því að taka hann upp.

Þá vil ég nefna lýðræðishluta samningsins en við höfum engin áhrif á mótun þeirra reglna sem okkur er skylt að taka upp á grundvelli hans og formlegt neitunarvald Alþingis er óvirkt.

Þá er ávinningur þjóðarbúsins að sameiginlegu myntsvæði ótvíræður að mati margra í atvinnu- og viðskiptalífinu og mundi skila okkur tugum milljarða í þjóðarbúið í formi lægri vaxta og umsýslukostnaðar. Við Íslendingar vitum ekki fyrir fram hvað við fáum út úr Evrópusambandsaðild. Á það verður að reyna í samningaviðræðum. Fordæmum a.m.k. ekki fyrir fram en munum að til aðildar kæmi aldrei án þess að á undan fari ítarlegar viðræður þar sem við Íslendingar mundum fara fram með háleit samningsmarkmið fyrir okkar hönd. En það er að lokum íslenska þjóðin sem metur hvort samningarnir teljast viðunandi. Þess vegna er mikilvægt að upplýst umræða fari fram með víðtækri þátttöku landsmanna allra. Málið er of stórt til að skella skollaeyrum við aðvörunum.