Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:10:45 (4887)

2002-02-19 14:10:45# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:10]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir innlegg hans. Það var ljómandi gott. Í annan stað vil ég gera athugasemd við ræðuna sem síðast var flutt, af hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Í ræðu hennar kom fram reginmisskilningur á margan hátt eins og reyndar í sjónvarpsviðtali við hana nýverið.

Þegar EES-samningurinn var gerður lá algerlega ljóst fyrir hvaða EFTA-ríki hygðust ganga inn í Evrópusambandið. Við fullgiltum þennan samning með atbeina Alþfl. þrátt fyrir þá vitneskju. Þar hefur því ekkert breyst. Í annan stað er áhugi Norðmanna ekki meiri en svo að forsætisráðherrann þar hefur nýlega lýst því yfir, með orðalagi sem hér má ekki nefna, að innganga eða umræður um aðild að Evrópusambandinu væru ekki á dagskrá í Noregi fyrr en í fyrsta lagi árið 2005. Þannig er málið þar ekkert á dagskrá, en slíkt má ekki nefna hér því þá halda menn að verið sé að banna umræður um þetta mál.

Í annan stað vil ég nefna eitt atriði sem hefur komið fram, bæði hjá hv. þm. og eins hv. formanni Samfylkingarinnar sem talar um að það veiki samninginn að áhuginn hafi minnkað á þessum samningi í Evrópusamandinu. Þetta er einhver reginmisskilningur. Það er ekkert vandamál út af fyrir sig að fullgerður samningur sem virkar vel sé ekki daglega á vörum skrifræðisfólksins í Brussel. Ég get nefnt sem dæmi mjög góðan samning annan, varnarsamninginn við Bandaríkin. Við verðum vör við það aftur og aftur að afar fáir menn í bandaríska stjórnkerfinu vita um þann samning eða velta þeim samningi fyrir sér. En um leið og til þess samnings þarf að grípa virkar hann, nákvæmlega eins og EES-samningurinn.

Ég hef átt í viðræðum við forustumenn Evrópusambandsins á allra hæstu stigum sambandsins. Þar kemur alltaf og ætíð fram að EES-samningurinn er að þeirra mati samningur sem virkar. Á honum eru ekki verulegir gallar. Hins vegar er það hárrétt, eins og hæstv. utanrrh. nefndi, að breyta þarf þessum samningi að breyttu breytanda. Að því hefur utanrrh. verið að vinna og ég styð hann í því.