Þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:19:22 (4891)

2002-02-19 14:19:22# 127. lþ. 80.94 fundur 346#B þróun tengsla Íslands og Evrópusambandsins# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Nú er óumdeilt að EES-samningurinn sem svo mikil átök urðu um á sínum tíma varð íslensku atvinnulífi sú mikla lyftistöng sem upphafsmenn hans væntu og að samningurinn átti ríkan þátt í uppgangi efnahagslífsins á síðasta áratugi. En umhverfi samningsins hefur breyst og íslenskum stjórnvöldum ber að endurmeta stöðuna. Ég vildi óska að þeir sem vinna með EES-samninginn gætu verið sammála hæstv. forsrh. um að hann virki svona vel.

Herra forseti. Margir Íslendingar hafa gert upp hug sinn um Evrópusambandið en þorri fólks telur sig ekki enn hafa forsendur til að taka afstöðu. Það sem skilur á milli pólitískrar umræðu þá og nú er að þjóðin ákveður sjálf, að undangenginni umræðu og að skilgreindum samningsmarkmiðum, hvort við göngum í ESB. Ákvörðunin verður tekin í þjóðaratkvæðagreiðslu og þessi staðreynd skiptir öllu máli. En til að fólk geti tekið svo afdrifaríka ákvörðun verða kostir og gallar hugsanlegrar Evrópusambandsaðildar að liggja ljósir fyrir. Slík vitneskja verður eingöngu til við öfluga og upplýsta umræðu og sú umræða hefur verið vakin af Samfylkingunni, af Framsfl., af Samtökum iðnaðarins, af verkalýðshreyfingunni og fjölda aðila úr íslensku atvinnulífi.

En Sjálfstfl. tekur ólýðræðislega ákvörðun á þröngum fundum og lokar á umræðuna og það höfum við heyrt í dag. Hæstv. forsrh. hefur í Kastljóssþætti í sjónvarpinu talað um að það mætti prófarkalesa þennan samning og að við fengjum e.t.v. að fjalla um reglugerð um rottueitur ef við gengjum í Evrópusambandið. Þetta er ekki sæmandi umræða.

Herra forseti. Samfylkingin hefur valið að virkja alla flokksmenn í umræðu og ákvarðanatöku um Evrópusambandsaðild. Þar með hefur Samfylkingin fyrstur stjórnmálaflokka sett málið í formlegt ferli ákvarðanatöku.