Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:36:08 (4897)

2002-02-19 14:36:08# 127. lþ. 80.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv. 13/2002, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum um þetta mál er hér á ferðinni ein af þeim aðgerðum sem verið er að grípa til til þess að reyna að hamla gegn brottkasti. Hér er um það að ræða að breyta lögum um umgengni um nytjastofna sjávar á þann veg að þeir sem ætla sér að varpa afla fyrir borð eigi ekki skjól í því að geta útskýrt þá breytni sína með því að benda á að um sé að ræða sýktan eða skemmdan afla ellegar að um sé að ræða verðlausar tegundir utan kvóta.

Flestir hljóta að fagna því að fastar skuli tekið á þessum málum. Það er hins vegar ekki alveg vandalaust eins og fram kemur í þessu nál. og fram kom í máli hv. formanns nefndarinnar, framsögumanns nál. Það eru auðvitað álitamál sem koma upp þegar fjalla þarf um hvernig farið skuli með þann afla sem menn eiga núna að færa að landi en á ekki að teljast hluti af aflamarki skips.

Í frv. var gert ráð fyrir að allur sá afli færi til bræðslu og átti það þá að vera fullnægjandi aðgerð til að aðgreina þennan afla frá öðrum sem færi til annars konar vinnslu. Hins vegar komu fram ábendingar um að ýmislegt af því sem mönnum yrði gert að koma með til lands gæti verið nýtanlegt til mun verðmætari vinnslu en þeirrar að fara með allt til bræðslu. Þar af leiðandi er í rauninni opnað á að það sé mögulegt að gera hlutina með öðrum hætti, að nýta þennan afla til að gera úr honum verðmætari afurðir.

Ýmis álitaefni í frv., herra forseti, eru hins vegar ekki þannig frágengin að þeir sem síðan koma ekki frekar að ákvörðunum geti algjörlega treyst því að þar verði farið með hluti eins og þeim fyndist einum rétt. Það er sem sagt hér eins og á ýmsum öðrum sviðum þegar kemur að sjávarútvegi, og reyndar fleiri sviðum sem löggjöf tekur til, að ráðherra er endanlega falið að ákvarða hvernig með skuli farið. Það er þess vegna sem ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson, sem eigum sæti í sjútvn. fyrir hönd Samfylkingarinnar, skrifum upp á þetta nál. með fyrirvara. Við styðjum þær aðgerðir sem verið er að fara í, við höfum bæði áður lýst yfir áhyggjum af því hvernig það ákvæði sem hér er verið að breyta var orðað í lögunum um umgengni um nytjastofna sjávar, og við viljum að tekið sé á málum. Fyrirvari okkar lýtur að því að löggjafinn kemst með því ekki að niðurstöðu um það hvernig farið skuli með heldur er það lagt í hendur ráðherra.

Þetta veit ég að menn skilja mætavel. Það er nú svo, herra forseti, að stjórnarandstöðu er jafnan vandi á höndum þegar hún þarf að styðja góð mál sem þó eru hvað varðar mikilvæga útfærslu endanlega lögð í hendur ráðherra ríkisstjórnar. Eigi að síður, herra forseti, styðjum við þessa breytingu út af fyrir sig eins og hér kemur fram. Fyrirvari okkar lýtur að framkvæmdinni og hvernig með hana verður farið.