Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 14:40:20 (4898)

2002-02-19 14:40:20# 127. lþ. 80.6 fundur 286. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (brottkast afla) frv. 13/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hef ég, sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn., skrifað undir nál. hæstv. sjútvn. með fyrirvara. Ég tel að margt gott sé í þessu frv., þetta er viðleitni og aðgerðir til að hamla gegn brottkasti. En ég vil nefna í sambandi við fyrirvara mína að ég hef áður lýst því yfir að ég tel óheppilegt í löggjöfinni um fiskveiðistjórn að ráðherra sé gefið vald til reglugerða um stjórn þessara mála í ríkum mæli. Það hefur gerst þráfaldlega og er núna að gerast líka í þessu frv. og það tel ég ekki til bóta.

Ég tel hins vegar að það sé til bóta, eins og kemur fram í 2. gr. laganna, að veiðum skuli hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum. Þar segir: ,,Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun einstakra veiðarfæra.`` Ég tel að umræðan um notkun veiðarfæra sé mjög skammt á veg komin og þetta sé vinna sem við þurfum að einhenda okkur í á allra næstu mánuðum. Þetta er sennilega eitt af stóru málunum sem þarf að fara ofan í.

Þar segir líka, í 1. gr.: ,,Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.`` Það sjá allir í raun og veru ef við lítum til framtíðar að þetta er ákaflega óheppilegt vegna þess að ef við tökum t.d. hausa, sem eru nú um stundir á mjög góðu verði, framkallar markaðurinn það auðvitað að menn koma með hausana að landi núna og þeir fara í þurrkun. Við fengum þær upplýsingar í hv. sjútvn. að í júní sl. hafi það verið mat aðila í verkuninni að við værum að henda hausum fyrir allt að 3,2 milljarða í útflutningsverðmætum og síðan hafa hausarnir hækkað stórlega og þá auðvitað kemur meira að landi.

Þetta reglugerðarákvæði sjútvrh. byggir á því að hann getur, ef markaðsaðstæður verða þannig, heimilað enn á ný að þessari afurð verði hent í sjóinn. Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur að skapa þannig umgjörð í fiskveiðistjórnarkerfinu að mönnum sé uppálagt að koma með allar þessar afurðir að landi, það séu hinar eiginlegu leikreglur og menn verði síðan að þróa möguleika til að gera úr afurðunum verðmæti, ekki bara að fylgja markaðsaðstæðum hverju sinni. Náttúrlega dytti ekki nokkrum manni í hug að leyfilegt yrði að henda flökum ef markaðsaðstæður byðu upp á slíkt en hirða bara þorskhausa og dálka. Þetta dæmi er bara til að undirstrika galla ákvæðisins. Þetta er spurning um umgengni um auðlindina og um ramma fyrir þá sem nýta hana. Ég tel að við verðum að færa okkur mjög mikið inn á þær brautir að sem mest komi að landi og leikreglurnar verði í þeim dúr.

Virðulegi forseti. Þetta frv. er skref í rétta átt og ég tel að þarna inni séu atriði sem feli í sér þróun til betri vegar. Ég nefni þar sérstaklega veiðarfærin og að áhersla verði lögð á að menn taki aflann með vistvænum aðferðum, betri veiðarfærum og hagstæðari fyrir lífríkið. Ég tel að það sé auðvitað stórt atriði fyrir okkur að þessi fiskur komi að landi í ríkari mæli og það verði hvati til þess að nýta afurðina, hvort sem hún er selbitin eða sýkt o.s.frv. þannig að þetta er skref í rétta átt. Eins og ég nefndi áðan getum við þó spurt okkur sjálf hvort nóg sé að gert. Ég tel að við þurfum að þróa umræðuna um veiðarfærin, um möguleika ráðherra til að setja reglugerðir og heildstæða nýtingarstefnu þannig að menn geti ekki eftir lögmálum markaðarins hent tiltekinni afurð í sjóinn um tíma þangað til markaðsaðstæður lagast. Það tel ég að sé röng stefna og hana þarf að skoða í betra tómi.

Virðulegi forseti. Ég hef sem sagt skrifað undir þetta frv. með fyrirvara og læt máli mínu nú lokið.