Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 15:16:43 (4901)

2002-02-19 15:16:43# 127. lþ. 80.8 fundur 29. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., BH
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Málið sem hér er lagt fram og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert ítarlega grein fyrir er eitt af mörgum málum sem Samfylkingin hefur lagt fram á umliðnum árum í því skyni að stuðla að bættri stjórnsýslu og því að meðferð valds og almannafjár verði sem best tryggð. Þær beinast ekki síður að því að eftirlitskerfið sem við höfum útbúið í kringum lýðræðið virki. En eins og dæmin sanna, ekki síst frá síðastliðnu ári, eru æðimörg tilefni til að stuðla að því að eftirlitskerfið sé bætt til muna. Á því hafa komið í ljós mjög margar brotalamir.

Samfylkingin hefur líka haldið úti mikilli umræðu með opnum fundum og einnig innan flokksins um lýðræðið, um inntak þess, um þróun þess og hvert við eigum að stefna til að bæta lýðræðið. Í þeirri umræðu hefur verið komið inn á hugtakið stjórnfestu sem snertir það sem þessi mál fjalla öll um á einn eða annan hátt.

Ég vil, herra forseti, vekja athygli á þessu hugtaki. Hugtakið stjórnfesta hefur verið sett fram, kannski í nýrri og sérhæfðri merkingu, í nýlegu afmælisriti Þórs Vilhjálmssonar. Höfundar þess eru Guðmundur Alfreðsson og Herdís Þorgeirsdóttir. Þau hafa nefnt þetta hugtak til sögunnar í grein sem þau nefna Stjórnfestu og mannréttindi. Ég vil vitna örlítið í þessa grein, herra forseti, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Orðið stjórnfesta er notað hér í nýrri og sérhæfðri merkingu til þýðingar á enska hugtakinu ,,good governance``. Alþjóðlegar þróunar- og fjármálastofnanir hafa undanfarin ár notað þetta hugtak í formi leiðbeininga og ráðlegginga til stjórnvalda í löndum, þar sem þessar stofnanir starfa að þróunarmálum.

Stjórnfesta hæfir hugtakinu eins og það hefur þróast í meðförum viðkomandi stofnana. Eins og fram kemur í þessari grein snýst innihald stjórnfestuleiðbeininganna að verulegu leyti um nauðsyn þess að stjórnvöld fari skipulega og með festu eftir lögum og reglum og geri það á heiðarlega og gegnsæjan hátt með tilheyrandi ábyrgð ef út af er brugðið. Nauðsyn ber til þess að sjálfstæðar stofnanir, svo sem saksóknarar og dómstólar, sem og óháðir fjölmiðlar og félagasamtök, haldi uppi eftirliti með framkvæmd leiðbeininganna.``

Síðar í grein þeirra Guðmundar Alfreðssonar og Herdísar Þorgeirsdóttur segir, með leyfi forseta:

,,Stjórnfestan beinist fyrst og fremst að samskiptum valdhafa við almenning þar sem virðing fyrir lögum og mannréttindum á öllum stigum lýðræðislegs stjórnkerfis á að vera forgangsatriði.

Með stjórnfestunni á að víkka svigrúm einstaklinga og fyrirtækja gagnvart stjórnvöldum með því að hamla gegn ofstjórnun, óstjórn eða spillingu hinna síðarnefndu. Stjórnfestunni er að sama skapi beint til ríkisstofnana og fyrirtækja í opinberri eigu sem og sveitarstjórna. Áhersla er lögð á að valddreifing og aukin þátttaka almennings í hinu lýðræðislega ferli séu viðurkenndir og virkir áhrifavaldar í betri nýtingu gæðanna. Stjórnfestan á að liðka fyrir gangverki hins lýðræðislega fyrirkomulags með því að veita stjórnendum aðhald rétt eins og öðru fólki.

Stjórnfestan er af þessum sökum nátengd réttarríkinu. Henni er beint gegn gerræðislegri og spilltri ákvarðanatöku stjórnvalda. Einræði og einsflokkakerfi samræmast augljóslega ekki stjórnfestunni. Hið sama gildir um öfgakenndar stjórnmálastefnur, svo sem óhefta frjálshyggju eða miðstýringu og reglufargan, sem verða til þess að eðlileg samkeppni og einkaframtak fá ekki notið sín.``

Herra forseti. Í grein þeirra Herdísar Þorgeirsdóttur og Guðmundar Alfreðssonar koma fyrir hugtök sem við könnumst við úr umræðu liðinna daga, jafnvel undanfarins árs. Hér á hinu háa Alþingi og reyndar víðar í samfélaginu hefur fólki orðið tíðrætt um spillingu og meðferð valds í stjórnsýslunni og hjá stjórnvöldum. Þess vegna, herra forseti, á þessi grein þeirra Herdísar og Guðmundar fullt erindi í þá umræðu sem hér fer fram um tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og okkar hinna sem að henni standa.

Ýmislegt fleira er athyglisvert í grein þeirra Guðmundar og Herdísar og á erindi inn í umræðuna í dag. Þau segja m.a., með leyfi forseta, í lokaorðum sínum:

,,Að okkar mati er ástæða til að vekja íslensk stjórnvöld til umhugsunar um mikilvægi þess að innleiða stjórnfestu og tengja hana mannréttindareglum með það að leiðarljósi að virðing fyrir lögum á öllum stigum stjórnkerfisins sé tryggð. Ef þátttaka í stjórnmálum er ekki almenn, ef allur þróttur er farinn úr opinberri umræðu, má búast við að helstu stofnanir og embætti ríkisvaldsins safnist á fáar hendur sem gæta eigin hagsmuna frekar en jafnréttis og hugsjóna um gott samfélag. Einstaklingar og hópar notfæra sér oftar en ekki slíka aðstöðu í einkaþágu ...``

Þessi mál, herra forseti, málið sem hér er til umræðu og fleiri sem Samfylkingin hefur lagt fram og tengjast stjórnfestuhugtakinu --- þá vil ég kannski fyrst nefna frv. um fjármál stjórnmálaflokka, um lagaráð, um rannsóknanefndir þingsins, um breytta skipan við skipan dómara og svo mætti áfram telja --- snúast um að gagnsæi og heilbrigði sitji í fyrirrúmi í stjórnsýslunni. Þeim er einnig ætlað að tryggja, herra forseti, að hagsmunir almennings séu jafnan hafðir í fyrirrúmi. Nýlegustu dæmin úr íslensku samfélagi sýna að því miður er það ekki alltaf svo. Valdið spillir, sagði einhver. Það er full ástæða til að stemma stigu við spillingu í íslensku samfélagi.