Siðareglur í stjórnsýslunni

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 15:38:27 (4904)

2002-02-19 15:38:27# 127. lþ. 80.8 fundur 29. mál: #A siðareglur í stjórnsýslunni# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta er hið þarfasta mál sem við ræðum hér. Ég held að það væri virkilega hollt viðfangsefni fyrir alla stjórnsýsluna, stjórnmálamenn og alla þá sem koma að stjórn í opinberum rekstri og stjórnsýslunni almennt að þeir fengjust við það að lesa yfir einhvers konar skrá um hvaða siðferðisskyldur menn hefðu og ættu að líta til í því sem þeir vinna við. Mér finnst að ekki sé mikill áhugi hjá stjórnvöldum á því að ræða þessi mál og kannski er sá áhugi í lágmarki þessa dagana af ástæðum sem búið er að nefna hér og það sé ástæðan fyrir því að enginn mætir í þessa umræðu af stjórnarliða hálfu. Mér hefði fundist viðeigandi að menn kæmu hér og ræddu málið og veltu því fyrir sér hvort á þessu þyrfti að halda, hvort það væri virkilega þannig á Íslandi að setja þyrfti einhverjar slíkar reglur eða hvort siðferðisvottorðin, sem langar lofræður hafa verið hafðar um að allt væri best á Íslandi hvað þetta varðar, ættu bara að duga.

Ég held að það sé ekki þannig. Ég held að á Íslandi sé siðferðið ekki í nógu góðu lagi í stjórnsýslunni. Og það er ekki í nógu góðu lagi á opinberum vettvangi. Stjórnvöld eiga alveg sérstakan kafla í þessum málum sem hefur verið nefndur hér í umræðunni, sem er fólginn í því að á tiltölulega fáum árum hafa menn flutt fyrirtæki sem voru áður opinberar stofnanir yfir í hlutafélagaform og hvort sem það hefur verið meðvitað eða ekki þá hafa menn um leið búið til einhvers konar vegg eða tjald á milli opinberra fyrirtækja sem áður voru og þeirrar starfsemi sem ríkið rekur að öðru leyti. Það er að mínu viti algjörlega ástæðulaust og ég tel að þó jafnvel aðrir eigi hlut í félögum eða fyrirtækjum með ríkinu, ef ríkið á þar stóran hlut í, þá sé ekki óeðlilegt að um slík fyrirtæki gildi allt aðrar og ákveðnari kröfur um opna stjórnsýslu og aðgang að upplýsingum heldur en önnur fyrirtæki í landinu. Og þeir sem kaupa og eiga hluti á móti ríkinu eigi að ganga að því bara sem vísu að þannig sé það.

Það er nú svo fráleitt að menn standa frammi fyrir því á hv. Alþingi að sum af þeim fyrirtækjum sem hafa verið gerð að hlutafélögum eru eingöngu í eigu ríkisins. Og það er enginn hluthafi sem gegnir hluthafaskyldunni nema ráðherra. Þegar síðan alþingismenn spyrja um þessi fyrirtæki, sem er ekki búið að selja eitt einasta hlutabréf í, þá eru sömu svörin: Það er brot á hlutafélagalögum að segja frá því sem spurt er um. Þetta er auðvitað gjörsamlega fráleitt fyrirkomulag. Ég held því fram að það þurfi ekki að vera svona og ég held því fram að það hljóti að mega koma málum þannig fyrir að sá sem fer með eignarhald ríkisins og er það falið hafi þá skyldu að koma þeim upplýsingum á framfæri við eftirlitsaðilann, sem er þá Alþingi og þær stofnanir sem það er falið, sem spurt er eftir.

Ég verð að segja til að hafa ræðu mína ekki allt of neikvæða að það varð samt sem áður jákvæð breyting á afstöðu embættismanna og opinberra starfsmanna til almennings í landinu fyrir nokkrum árum. Viðmót og þjónusta opinberra fyrirtækja breyttist til hins betra. En gera þarf betur. Mér finnst að það megi samt ekki líta fram hjá því að ýmsar opinberar stofnanir, bæði ríkis og sveitarfélaga, hafa breytt verulega um stíl og menn mæta mjög þægilegu og góðu viðmóti hjá þeim stofnunum, en það sem á skortir, að mér finnst fyrst og fremst, er leiðsögn hins opinbera gagnvart málefnum af því tagi sem ég hef verið að ræða hérna núna og hefur verið rætt um í ræðum í dag.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég tek undir það að þegar sum fyrirtæki eiga í hlut í þessari umræðu, þá læðist að manni sá illi grunur að menn hafi í raun og veru viljað koma þeim fyrirtækjum í einhvers konar skjól þar sem upplýsingar væru ekki jafnaðgengilegar og þær eru þegar um er að ræða opinbera stofnun. Þessu þarf auðvitað að breyta og það þarf að breyta meira en því. Það þarf að breyta siðferðisvitundinni hjá einhverjum fjölda manna. Það sjáum við á því að verið er að ræða við jafnvel stjórnarformenn fyrirtækja, svo ég taki nýtt dæmi. Stjórnarformaður Símans sagði í viðtali og meinti það greinilega því hann var nánast hissa á því að hann væri um það spurður hvort honum fyndist ekkert athugavert við það fyrirkomulag sem var á greiðslum til hans fyrir störf fyrir Símann. Honum fannst það hreint ekki athugavert. Samt var um það að ræða að hann var að taka að sér verulega mikil störf fyrir þetta fyrirtæki og aðferðin við að greiða fyrir þau störf var sú að kvittað var undir það í ráðuneytinu en stjórnin vissi ekki neitt um það. Þetta er hinn besti maður sem þarna á í hlut og það er ástæða til að velta því fyrir sér hvers konar umræða er það í gegnum tíðina sem hefur kennt mönnum það að slíkt fyrirkomulag sé í lagi, þegar hinir bestu menn lenda í vanda eins og þessum.

Við þurfum á þessari umræðu að halda. Við getum öll lent í því að meta rangt hluti af þessu tagi. Þess vegna held ég að það sé kannski helsta röksemdin fyrir því að það eigi að setja siðareglur af þessu tagi, að þær gefa tilefni til umræðunnar sem ég hef verið að tala um.