Siðareglur fyrir alþingismenn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:00:41 (4906)

2002-02-19 16:00:41# 127. lþ. 80.9 fundur 30. mál: #A siðareglur fyrir alþingismenn# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er enn komið þingmál sem ég hefði kosið að ræða á Alþingi fyrir fullum sal og með þátttöku þingmanna, bæði stjórnarliða og stjórnarandstæðinga. Hér er til umræðu tillaga um siðareglur fyrir okkur sjálf. Það er með ólíkindum að ekki sé meiri vilji og áhugi á því að ræða á hreinskiptinn hátt hvernig við viljum haga þessum málum. Heiðarleg og hreinskiptin umræða um málefni okkar sjálfra, þingmanna, væri til sóma.

Ég hef velt því fyrir mér hvar sú umræða ætti að fara fram. Hvar er vettvangurinn þar sem við getum rætt um hvar pottur er brotinn varðandi okkur og umhverfi okkar, e.t.v. varðandi réttindi okkar, skyldur okkar eða aðra þætti? Ég hef ekki séð þann vettvang. Það er ekki vilji til að endurskoða þingsköp sem væri einn þáttur þess að skapa okkur umhverfi sem við gætum treyst og skýrar reglur. Þó er vitað að þar er víða þörf á úrbótum. Við þyrftum að ræða hvort reglurnar sem gilda fyrir okkur og við störfum eftir séu þannig að við getum treyst þeim ef á reynir. Það hefur ekki alltaf verið þannig.

Í greinargerð kemur fram að danskir þingmenn sitja ekki í stjórnum, nefndum og ráðum. Þar eru svo skýrar reglur um aðskilnað ríkisvalds og löggjafarvalds að þingmenn eru ekki tilnefndir í nefndir á vegum ríkisins til að vinna að undirbúningi löggjafar. Þetta er miklu fremur regla hjá okkur. Hér sitja menn í bankaráðum, í stjórnum peningastofnana, og ég minnist þess hve mikla athygli það vakti eftir síðustu kosningar að nær allir þingmenn Framsfl. sem ekki urðu ráðherrar sátu í stjórnum og ráðum, e.t.v. fleiri en einni. Ef þeir sátu ekki í stjórnum og ráðum þá voru þeir settir í forustu fyrir starfsnefndir af einhverju tagi. Ég get t.d. nefnt formann í stjórn fyrir byggingu Barnaspítalans. Í raun og veru voru þingmennirnir með einum eða öðrum hætti fluttir inn undir arm framkvæmdarvaldsins.

Þeir höfðu fullt leyfi til þess. Það eru engar reglur um þetta hjá okkur. Það eru ólík viðhorf gagnvart slíku en engar reglur. Við erum oft spurð um þetta en við eigum ekki svör vegna þess að það eru engar siðareglur. Við erum að krulla þessu öllu saman, löggjafarvaldinu, þar sem við erum að reyna að vera aðhald að framkvæmdarvaldinu, og við nefnum og köllum til, eins og í umræðunni áðan, fjölmiðla okkur til halds og trausts. En svo flytjum við okkur til og förum úr hlutverki löggjafarvaldsins og aðhaldsins og gerumst þátttakendur í framkvæmdarvaldinu. Þetta er mjög umhugsunarvert.

Ég vil ræða annað. Ég vil ræða hvort það sé eðlilegt að þingmenn séu í starfi utan þings. Ég varpa fram spurningunni: Er þingmennska fullt starf eða er þingmennska ekki fullt starf? Er þingmennska hálft starf, hlutastarf, eða einhvers staður þar sem maður kemur þegar mann langar í umræðuna eða mætir í skyndi í atkvæðagreiðslu? (JóhS: Góð spurning.) Þegar ég er spurð hvort þingmennska sé fullt starf segi ég já. Þegar ég er spurð hvort ég geti komið við þar eða hér á leið minni úr Kópavogi í bæinn þá segi ég: Það er bara þannig að ég er gjarnan á leið úr Kópavogi milli 8 og 9 á morgnanna og það er mjög algengt að ég komi síðan heim milli 6--7 á daginn.

Ég er líka stundum spurð: Hvernig getur einhver verið framkvæmdarstjóri úti í bæ þegar hann situr á þingi? Ég er spurð: Hvernig getur einhver verið verktaki einhvers staðar ef hann situr á þingi? Þá má líka spyrja: Er eðlilegt að sitja í sveitarstjórn ef maður er á þingi, jafnvel sem oddviti meiri hluta? Þetta eru spurningar sem eru ekki ræddar í þessum sal. Þetta eru spurningar sem ekki er vettvangur til að ræða. En við roðnum þegar við erum spurð um þessi mál utan þessara veggja.

Ég spyr: Hefur það verið rætt á vettvangi Alþingis hvort þingmenn eigi að helga sig þessu starfi? Svarið er nei. En við höfum rætt það í þingflokkum okkar. Eins hér hefur komið fram hefur þingflokkur Samfylkingarinnar samþykkt reglu þess efnis að þingmenn flokksins gegni ekki föstu starfi utan þings og sitji ekki í stjórnum banka, sjóða eða annarra stofnana sem dregið gætu úr hæfi þeirra til þingstarfa eða leitt til hagsmunaárekstra eða raskað að öðru leyti skyldum þeirra, stjórnarskrárbundnum eða öðrum. Þetta er meginatriðið. Þetta er meginatriðið í þessum umræðum. Hverjir taka þátt í henni? Það eru þingmenn Samfylkingarinnar og þingmaður Vinstri grænna. Hvar er allt hitt fólkið sem á að láta sig þessi mál varða? (Gripið fram í: Kemur þetta ekki við.) Hvar eru þeir sem verja það jafnvel að menn séu úti í bæ þegar þeir eiga að vera annars staðar á vettvangi þingsins?

Á bls. 2 er nefnt að nefndin hafi frjálsar hendur um mótun siðreglna. En það er nefnt að þingmenn leggi fram lista yfir störf og setu í stjórnum, ráðum og nefndum utan þings og launakjör þeim tengd. Þessi tillaga á við okkur. Hér má á ný spyrja um þá sem gegna trúnaðarstörfum í stjórnsýslunni, samanber það sem við höfum verið að ræða að undanförnu. Það er gott að við setjum okkur slíkar reglur. Við getum þess vegna gert kröfu um að slíkar reglur verði settar um aðra sem sinna opinberum trúnaðarstörfum.

Annað mál sem ekki heyrir undir þessa tillögu en tengist góðum vinnubrögðum og aðskilnaði framkvæmdarvalds og löggjafarvalds er að ráðherrar séu ekki þingmenn. Við höfum líka flutt tillögur um það og rætt undir öðru þingmáli. Allt er þetta undir því komið að reglur séu skýrar, skyldurnar ljósar, að menn viti hverju þeir helga sig og viti hverju þeir eru bundnir. Þetta eru mjög skýr atriði.

Herra forseti. Að þeim orðum sögðum verð ég að bæta því við að við getum ekki undanskilið sjálft Alþingi. Alþingismenn eiga að geta gengið að settum reglum, skyldum og réttindum, geta gengið að þeim og treyst því að fari þeir að settum reglum geti þeir varist, sé öðru haldið fram. Því miður, herra forseti, hefur það ekki alltaf verið þannig.