Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:51:48 (4913)

2002-02-19 16:51:48# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:51]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ekki heil brú í því sem hv. þm. setur fram. Ég held að það sé ekki til stærra eða lengra bil milli skoðana nokkurra í húsnæðismálum en milli mín og hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hv. þm. talar um framboð og eftirspurn. Hann talar um að húsaleigubætur hafi hækkað leiguna, valdið skorti á íbúðum og skekkt markaðinn.

Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir rótum vandans. Hverjir skekktu markaðinn? Það var ríkisstjórnin sem hv. þm. á sæti í. Það var ríkisstjórnin, þegar hún lagði niður þá valkosti sem voru til fyrir láglaunafólk. Hún lagði niður félagslega íbúðakerfið og bjó til mikla eftirspurn á markaðnum eftir leiguíbúðum fyrir fólk sem hafði ekki tækifæri til þess að eignast íbúð. Sú eftirspurn leiddi til þess að verð á leiguíbúðum hækkað upp úr öllu valdi, 20--40%. Þetta hefur skekkt markaðinn, herra forseti. Þetta hefur valdið skorti á leiguhúsnæði fyrir fátækt fólk á Íslandi. En að detta í hug að bjóða fólki upp á að húsaleigubæturnar hafi hækkað leiguna eða valdið skorti á leiguíbúðum er auðvitað fjarstæða. Slíkur málflutningur er ekki mönnum bjóðandi.

Mér finnst það koma úr hörðustu átt að stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar, sem komið hefur láglaunafólki í þá stöðu að 2.000 manns séu á biðlista eftir leiguíbúðum, reiði fram úr þessum ræðustól skoðanir sem ekki er heil brú í, herra forseti.