Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 16:53:53 (4914)

2002-02-19 16:53:53# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[16:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að leiðrétta hv. þm. Ég á ekki sæti í ríkisstjórn enda er ég ekki ávarpaður hæstv. Svo vil ég líka segja að ef við hugsum okkur, sem dæmi svo að hv. þm. geti skilið þessa röksemdafærslu um framboð og eftirspurn, að húsaleigan yrði borguð að fullu af ríkinu, hvaða afleiðingar hefði það? Þá mundu allir fara að leita sér að íbúð sem dytti það í hug, helst tveimur eða þremur íbúðum. Framboð er ekki nema takmarkað, takmarkað framboð af íbúðum, lóðum og möguleikum til að byggja. Hvað gerist í slíkri stöðu? Menn taka að yfirbjóða leiguna hver fyrir öðrum og leigan hækkar. Þetta er nákvæmlega það sem hefur gerst með húsaleigubæturnar þó að það gerist kannski ekki alveg svona, þó að dæmið sé ekki eins skýrt þegar leigan er ekki greidd að fullu heldur að hluta. Það er bara rökrétt að þegar eitthvað er niðurgreitt lækkar greitt verð í byrjun og eftirspurnin vex. Þegar framboð er ekki nema takmarkað hlýtur verðið að hækka. Þetta hefur gerst með húsaleigubótunum.

Það nákvæmlega sama gerðist þegar húsbréfakerfið fór í gang og byggja átti upp félagslegar íbúðir út um allt land. Hvað gerðist? Byggingarkostnaður rauk upp og verðið varð mjög hátt. Niðurgreiðslan skekkir alltaf alla markaði. Þetta er þekkt í öllum fræðum um markaði.