Átak til að auka framboð á leiguhúsnæði

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:16:28 (4920)

2002-02-19 17:16:28# 127. lþ. 80.11 fundur 116. mál: #A átak til að auka framboð á leiguhúsnæði# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi mínum við þá tillögu sem hér er lögð fram af þingmönnum Samfylkingarinnar og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mælti fyrir. Hér er verið að hreyfa afar þörfu máli. Þáltill. gerir ráð fyrir að ráðist verði til atlögu við þann mikla vanda sem nú er við að glíma í húsnæðismálum, sérstaklega láglaunafólks, og það verði gert með sérstakri fjögurra ára áætlun um að auka framboð á leiguíbúðum. Síðan er nefnt hverjir þurfi að koma að því verki og ég tek undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram. Í tillögunni er í sjö atriðum gerð grein fyrir nokkrum áherslupunktum sem talið er að þurfi til að koma svo slíkt framtak sem hér er lagt til komist í verk og verði aðgengilegt fyrir þá sem við eiga að búa og þess að njóta. Það er ekki síst sá endinn á málinu sem menn þurfa að horfa á.

Margt fólk hefur ekki efni á að kaupa eigin íbúðir undir því kerfi sem við búum við í dag og undir því vaxtaokri, vil ég leyfa mér að segja, sem býðst á lánamarkaðnum. Þess vegna held ég að það sé alveg rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að hér áðan í andsvari að virkilega þarf að skoða vaxtastigið á þeim lánum og það væri auðvitað æskilegt ef sú tillaga sem hér er flutt fengi jákvæðar undirtektir og ríkisstjórnin sæi sér fært að beita sér fyrir því að vextir á lánum sem hugsanlega fengjust til þess að gera átak varðandi íbúðir á leigumarkaðnum færu ekki upp fyrir 3--4%. Ég held að láglaunafólk á Íslandi sem þarf að komast inn í íbúðarhúsnæði og hefur ekki bolmagn til þess að kaupa sér íbúðir á frjálsum markaði ráði ekki við þá vexti á lánum sem hér bjóðast nú varðandi íbúðarmál. Þess vegna verður hreinlega að taka á því að reyna að útvega ódýrara lánsfé. Sjálfsagt verður ríkið að koma inn í að greiða það niður með einhverjum hætti.

Þetta vildi ég segja um málið. Ég tel að það sé mjög gott og ég lýsi yfir stuðningi við það og vona að það fái jákvæðar undirtektir í þinginu.