Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:33:07 (4923)

2002-02-19 17:33:07# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:33]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frv. fjallar um að afnema það sem kallað hefur verið sjómannaafsláttur. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Katrín Fjeldsted.

Herra forseti. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar segir að allir skuli jafnir fyrir lögum. Það gildir að sjálfsögðu um skattalög líka. Það eiga allir að vera jafnir fyrir skattalögum. Það á ekki að þurfa að telja fram í skattalögum sérstaka hópa eða einstaklinga.

Hv. Alþingi hefur afnumið skattfrelsi forseta Íslands með þeim rökum að allir skulu vera jafnir fyrir lögum. Eftir standa tveir hópar í skattalögunum tilteknir sérstaklega. Það eru sjómenn annars vegar og starfsmenn utanríkisþjónustunnar og starfsmenn alþjóðlegra stofnana hins vegar sem ekki greiða skatt nema takmarkað. Í þessu felst ákveðin mismunun. Þetta brýtur gegn jafnræðisreglunni, að það skuli vera tekið sérstaklega fram í lögum að þegnarnir séu ekki allir jafnir fyrir lögunum. Hér er því lagt fram frv. um að afnema sjómannaafsláttinn.

Herra forseti. Samkvæmt svari frá hæstv. fjmrh. á 123. löggjafarþingi kemur fram að sjómannaafsláttur er ekkert annað en styrkur til útgerðar. Þetta er ekki styrkur til sjómanna. Vegna þess hve staða útgerðar hefur batnað mikið, alla vega frá því að sjómannaafsláttur var tekinn upp 1954 og alveg sérstaklega síðasta eitt og hálft ár, með gengisfalli krónunnar, er ekki ástæða til að styrkja útgerð öllu lengur.

Þessi afsláttur var á sínum tíma tekinn upp, eins og ég gat um áðan, sem hlífðarfata- og fæðisfrádráttur 1954 og bara fyrir suma fiskimenn, ekki fyrir sjómenn almennt. Þróun sjómannaafsláttar er dæmigerð fyrir ákveðna ívilnun sem er tekin upp og víkkuð út í tímans rás af því að margir hafa hagsmuni af því að eiga aðild að þessum hlunnindum.

Þetta var aukið í nokkrum þrepum. Fyrst var það fyrir alla fiskimenn, svo komu landmenn inn í það líka, beitningamenn o.fl. Síðan gildir þetta fyrir alla sjómenn. Frádrátturinn var fyrst 8%, síðan 10% svo 12%. Þetta er alveg dæmigert um ákveðin hlunnindi sem sett voru af stað á grundvelli ákveðinnar þarfar á sínum tíma. Það var erfitt að manna síðutogarana, vinnan var mjög erfið og launin lág. Þá var þetta tæki notað til að auka eftirspurn eftir þeirri vinnu. Það er allt saman löngu dottið upp fyrir. En eftir sitja hlunnindin og á þeim standa náttúrlega þeir sem njóta hlunnindanna eins og hundar á roði og passa að enginn komist að.

Framkvæmdin hefur verið mjög rúm. Menn hafa verið að víkka þetta stöðugt. Beitningamenn gat ég um áðan, fólk sem sefur heima allar nætur, er með sjómannaafslátt, menn sem vinna á hafnsögubátum o.s.frv. Þau rök að þetta séu greiðslur fyrir menn sem eru lengi að heiman falla um sjálf sig.

Herra forseti. Það er dálítið undarlegt að á sama tíma og við erum að takmarka útgerð í landinu með því að setja kvóta og alls konar hömlur á útgerðina erum við jafnframt að styrkja hana. Það er því ákveðin rökleysa að viðhalda sjómannaafslætti á sama tíma og við erum að takmarka aðgang að auðlindinni. Annars vegar erum við að hvetja menn til að gera út með því að niðurgreiða launin sem þeir greiða. Hins vegar erum við að takmarka það sem má veiða.

Þetta kerfi mismunar líka launþegum. Við erum með beitningamenn sem vinna við hliðina á öðru fólki í höfnum. Við erum með langferðabílstjóra sem einnig vinna fjarri heimilum sínum dögum saman og fá ekki langferðabílstjóraafslátt. Fólk í flugi starfar mikið langdvölum fjarri heimilum sínum. Svo erum við með starfsmenn frystihúsa sem gera nákvæmlega það sama og margir sjómenn á frystitogurunum en eru með miklu lægri laun. Starfsmenn frystihúsanna eru yfirleitt konur og njóta ekki skattafsláttar.

Einnig má líta á þetta mál sem byggðastefnu, þ.e. með því að niðurgreiða laun, t.d. á frystitogurunum, skekkjum við samkeppnisstöðu frystihúsanna við frystitogarana sem verður til þess að vinnslan fer út á sjó sem skaðar landsbyggðina og er hluti af því sem við sjáum, fólksflótta af landsbyggðinni.

Þetta mál er líka spurning um jafnrétti. Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði sjómanna eru 98% iðgjaldsgreiðenda karlmenn. Yfirgnæfandi hluti þeirra sem njóta sjómannaafsláttar eru því karlmenn og ekki einhverjir lágtekjukarlmenn, heldur þeir karlmenn í landinu sem hafa hæstu launin. Þeir njóta sjómannaafsláttar þannig að þetta er ekki félagslegt kerfi. Þetta er óréttlátt og ekki félagslegt kerfi og mismunun milli kynja. Það er hart fyrir konur sem vinna í frystihúsum við nákvæmlega sömu störf að fá engan afslátt en horfa upp á karlmenn með miklu hærri laun úti á sjó fá skattafslátt.

Menn hafa bent á að fólk sem er fjarri heimilum sínum, t.d. í flugi og aðrir, fái dagpeninga. Þingmenn fá dagpeninga. Ég hef svo sem gagnrýnt þá, að þeir séu allt of háir og ekki í samræmi við kostnaðinn sem á að greiða. Ég vildi gjarnan að það yrði skoðað, hvort sjómenn gætu ekki fengið dagpeninga. Hvað mælir á móti því að þeir fái dagpeninga eins og aðrar stéttir? Þá væru alla vega allir jafnir fyrir lögunum. Síðan geta menn skoðað það hvort dagpeningar eigi rétt á sér eins og kerfið er í dag. Ég tel svo ekki vera. Ég vil að menn fái að draga frá raunverulega kostnað við utanlandsferðir.

Þetta frv. var lagt fram 15. október 2001 og kemur til umræðu fyrst í dag. Þess vegna þarf að breyta gildistökuákvæðum en frv. gengur út á að sjómannaafslátturinn falli niður í þremur áföngum, þ.e. fyrst geti menn dregið frá 2/3, síðan 1/3 og svo falli hann alveg niður. Það þarf að sjálfsögðu að breyta gildistökuákvæðum og ákvæðum í 4. gr. frv. og treysti ég þeirri nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar fyrir þeim breytingum.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.