Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:51:47 (4925)

2002-02-19 17:51:47# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:51]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom víða við og fór langt aftur í aldir. Mér er ekki kunnugt um að sjómenn sem greiddu sætisgjald til kirkna, sýslumannsgjald eða spítalakostnað séu starfandi sjómenn í dag. Það er allt annað fólk. (Gripið fram í.) Það sem lagt er til hér er að menn séu ekki meðhöndlaðir mismunandi í lögum í dag, herra forseti. Það er meginhugsunin á bak við þetta frv.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um að ég ætti að taka alla skattaflóruna þá hef ég reyndar komið í tvígang með tillögu um að taka upp flatan tekjuskatt, 20% á alla, og afnema allar undanþágur, vaxtabætur, sjómannaafslátt o.s.frv., til einföldunar og til að gera þetta enn þá jafnara. Það er uppskurður á skattkerfinu sem ég hef nú reyndar lagt til. Hv. þm. ætti kannski að kynna sér það áður en hann segir að ég hafi ekki gert neitt í þessum málum.

Varðandi það sem hv. þm. sagði um máltíðirnar hérna niðri hef ég minnst á það áður að ég vildi gjarnan að Alþingi hætti þessari greiðastarfsemi. Það er nóg af stöðum hér í kring sem alþingismenn geta borðað á og borgað fyrir þann mat það sem hann kostar. Mér finnst óeðlilegt að Alþingi sé að greiða niður mat í þingmenn. Þeir eiga ekki að þurfa þess. Það er auk þess vonlaus samkeppni fyrir þá staði sem bjóða fram mat hér í kring.