Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 17:54:53 (4927)

2002-02-19 17:54:53# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Þess vegna var farið aftur til 1954, til þess að útskýra hvernig þessi frádráttur varð til, hvernig þessi ósköp mynduðust, þessi hlunnindi til sjómanna, vegna þess að það skilur það enginn í dag. Þess vegna var farið svona langt aftur til að útskýra að það var þörf á þessari aðgerð á sínum tíma, til að laða menn að erfiðu og lágt launuðu starfi. Þess er ekki lengur þörf. Það er slegist um plássin, a.m.k. á skuttogurunum, þeim sem veiða mest. Þannig er engin þörf á að laða menn til starfa með skattafslætti.

Varðandi tímavinnukaupið er það svo merkilegt --- ég hef séð þessa útreikninga --- að þrátt fyrir það er slegist um þessi störf. Það eru biðraðir eftir að komast á skuttogarana. Þessir menn eru með langt yfir hálfa milljón á mánuði í tekjur og þaðan af hærra. Burt séð frá þessum útreikningum á tímakaupi, sem er náttúrlega reiknað alveg í botn, stímið út á miðin og stímið heim og allt tekið með, virðist sem menn meti þetta til svo hárra launa að þeir keppast um þessa vinnu.

En ég ætla ekki að fara inn á fleiri atriði fyrr en í ræðu minni á eftir.