Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 18:16:30 (4930)

2002-02-19 18:16:30# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Flm. þessa frv. eru hv. þm. Pétur H. Blöndal og Katrín Fjeldsted.

Ég vil byrja á því að lýsa yfir algjörri andstöðu við frv. Það kemur til af því að sérstaða sjómanna veldur þessum afslætti eins og komið hefur fram í ræðum hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar. Sjómannaafslátturinn í sögulegu samhengi er ekki styrkur til sjómanna heldur niðurfelling á launagjöldum væntanlega eða kostnaðargjöldum til útgerðar. Þess vegna finnst mér alveg fráleitt að taka á þessum málum eins og hér er lagt til þó svo að hv. flutningsmenn gefi þriggja ára aðlögunartíma. En málið er bara ekki þannig vaxið, virðulegi forseti.

Sjómannastéttin er varðandi kjör sín, starfskjör, ekki bara bundin af samningum við sína vinnuveitendur, útgerðarmenn. Hún er bundin af samningum við Alþingi líka, sem kemur t.d. að lífeyrissjóðsmálum sjómanna. Ég er nú ekki eins þingreyndur maður og þeir hv. þm. sem málið flytja, en ef hugur þeirra stendur til þess að gera breytingar á starfskjörum sjómanna og koma á einhverri jafnræðisreglu hvað varðar sjómannaafsláttinn þá álít ég að það hefði verið heppilegri leið að setja fram þáltill. sem fæli ríkisstjórninni að kanna hvernig samskiptum ríkis, útgerðarmanna og sjómanna ætti að hátta. Ég tel vonlaust, óréttmætt og ósanngjarnt að taka þessa hluti svona úr samhengi og taka út fyrir sviga bara sjómannaafsláttinn, þennan skattalega afslátt.

Virðulegi forseti. Ég stóð að því með hv. þm. Pétri H. Blöndal ásamt hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að flytja þáltill. um niðurfellingu á skattfríðindum forseta Íslands. En þá var málið þess eðlis að þingið hafði í hendi sér, eins og niðurstaðan varð, að taka ákvörðun um að þrátt fyrir þessar kerfisbreytingar yrðu starfskjör forseta Íslands hin sömu. Við á hinu háa Alþingi höfum ekki í hendi okkar að starfskjör sjómanna verði hin sömu ef við ætlum að keyra fram svona lagasetningu. Þess vegna held ég að miklu heppilegra hefði verið að setja þetta fram í þáltill. þar sem ríkisstjórninni væri leiðbeint um að fara í viðræður við útgerðarmenn og sjómenn um starfskjör þeirra, vegna þess að á spýtunni hangir óafgreitt mál sem er stór liður í starfskjörum sjómanna, þ.e. málefni Lífeyrissjóðs sjómanna.

Við höfum fjallað um það margsinnis á hinu háa Alþingi að Lífeyrissjóður sjómanna er mjög illa staddur, m.a. vegna afgreiðslu frá hinu háa Alþingi. Þau mál verður að lagfæra og það er hluti af öllum þessum pakka. Það hefur margoft komið fram að vegna vinnu sinnar lenda sjómenn miklu oftar í slysum t.d. en aðrar starfsstéttir. Lífeyrissjóður sjómanna er því þannig settur að helmingi meiri greiðslur fara út úr þeim sjóði vegna örorku en hjá nokkrum öðrum lífeyrissjóði í landinu. Virðulegi forseti. Það er alveg óásættanlegt að hv. þm. sem leggja þetta frv. fram slíti málin úr samhengi á þennan hátt gagnvart starfskjörum sjómanna. Það er algjörlega óviðunandi.

Rætt hefur verið um starfskjörin og hvernig vinna sjómanna er. Ég held að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það. Það kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að 98% þeirra sem fara í þessa vinnu eru karlmenn. Við sem erum uppalin við sjávarsíðuna og eigum fjölskyldur sem stunda sjóinn af miklu kappi vitum náttúrlega að hún veldur gríðarlegu álagi á fjölskyldurnar og mennina sjálfa. Það eru mörg dæmi um að menn séu mjög illa farnir á miðjum aldri þegar þeir eru í raun unglingar miðað við aldurssamsetningu þjóðarinnar í dag. Menn sem eru orðnir sextugir og voru t.d. í útgerð í Norðursjónum þegar var verið að bjarga íslensku efnahagslífi eins og hægt var á þeim tíma eftir hrun síldarinnar eru mjög illa farnir í dag enda stunduðu þeir sjóinn af miklu kappi.

Þessir aðilar fá greitt í dag vegna örorku t.d., eða þeir sem eldri eru orðnir og komnir á lífeyri, skammarlega lágar upphæðir til ráðstöfunar --- ég hef yfirlit yfir það. Það er algjörlega úr samhengi við það sem aðrar starfsstéttir búa við, því miður. Eins og ég segi, ef við viljum fara yfir söguna þá eru þetta mennirnir sem lögðu grunn að velsæld okkar í raun og lögðu enn þá harðar að sér á þessu árabili sem ég var að nefna þegar kreppti að hér og við stóðum frammi fyrir aflasamdrætti upp á ein 600 þús. tonn í síldinni. Þá fóru þeir í víking til þess að afla þjóðarbúinu tekna og lögðu sig alla fram í mjög erfiðri stöðu.

Varðandi það að menn séu að óskapast yfir launum sjómanna þá held ég að menn ættu nú ekki hér í ræðustóli að fara mikið í þau mál miðað við upplýsingar í blöðum síðustu daga um menn sem eru að skammta sér fyrir aukastörf svo hundruðum þúsunda skiptir. Það stenst nú engan veginn samanburð.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta frv. sé algjörlega ónothæft. Ef menn af vilja fara í að endurskoða starfskjör sjómanna í alvöru þá verður að gera það á öllum þessum póstum sem ég nefndi. Það verður að taka með í dæmið samskiptin við ríkið og aðkomu þess að þessum málum. Það verður að fá útgerðarmenn að borðinu og náttúrlega samtök sjómanna. Annars vinnst þetta mál ekki. Hafi hv. þm. Pétur H. Blöndal ímyndað sér að þetta væri mál í líkingu við það að fella niður skattfríðindi forseta Íslands þá er það hinn megnasti misskilningur, reginmisskilningur. Það er engan veginn samanburðarhæft. Eins og ég sagði áðan var þinginu í sjálfsvald sett að bæta honum það að fullu enda varð það niðurstaðan þegar skattfríðindin voru tekin af embætti forseta Íslands. Hann stóð því jafnsettur eftir sem áður.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg fleiri orð um þessi mál. En af því að menn eru nú alltaf að tala um fríðindi, hvað gott sé að vera á sjó og hve þar fást miklar tekjur o.s.frv. þá stöndum við kannski samt frammi fyrir erfiðum málum þegar til framtíðar er litið varðandi sjómannastéttina og jafnvel vélstjóra. Ég veit ekki betur en að mun minni ásókn sé í þetta nám en verið hefur. Það bara segir sína sögu. Ungir menn sem fara á þessar happafleytur sem gefa þeim miklar tekjur í dag segja manni í samtölum að þeir líti á þetta sem tímabundna vinnu, uppgripavinnu um tíma. Mér finnst mikil breyting hvað varðar andann í þeim efnum miðað við það sem ég upplifði bara fyrir 10--15 árum. Það eru nefnilega að eiga sér stað breytingar og menn eru að upplifa það og finna sig þannig stemmda að þeir hafi minna öryggi en við áttum að venjast bara fyrir 10--15 árum.

Enda var það þá svo að útgerðarmunstrið í landinu var meira og minna tengt sjávarbyggðum landsins og frá hverri verstöð gerðu út kannski 1--3 togarar og nokkuð greiðlega gekk fyrir sig að komast í pláss. Menn gátu unnið sig upp, sáu framtíð í þessu, tengingu við fjölskyldu sína o.s.frv. Núna hefur orðið gríðarleg breyting. Ungir menn til sjós í dag fara landshornanna á milli í flugvélum og vita jafnvel ekkert hvar þeir landa næsta skipti. Og þeir vita ekki einu sinni kannski á hvaða togara þeir verða settir næst, tveim dögum eftir að þeir koma í land. Þetta finnst sjómannastéttinni og þeim sjómönnum sem ég hef talað við mjög óþægileg staða og það sem meira er, ég held að þeim finnist þetta óþægileg staða vegna þess að fjölskyldunum heima fyrir finnst þetta afleitt. Þannig er staða þessara manna og þannig er staða makans heima fyrir og barnanna.

Það er kannski vegna þessara breytinga að minna ber á áhuga ungra manna --- og ég tala nú ekki um kvenna. Þær hafa ekki sótt mikið inn í þessa grein --- til þess að hasla sér völl í greininni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal áttar sig á því að svona breytingar til verri vegar eru kannski mörg ár að koma fram, koma kannski ekki fram fyrr en á næstu þremur til sjö árum. Þá væri illa komið ef satt er að þessi þróun sé á þennan veg hjá þjóð sem fiskar á hvern sjómann sjö sinnum meira en þeir sem koma á hæla okkar.

Virðulegi forseti. Frv. er ónothæft. Vilji menn breytingar verður að taka á starfskjörum sjómanna í öllum þremur liðunum sem ég hef nefnt. Það er ekkert sáluhjálparatriði fyrir sjómenn í sjálfu sér að hafa sjómannaafslátt. Þeir vilja bara hafa sín starfskjör. Og ef þeir standa jafnir hvað varðar afsláttinn þá er ég viss um að þeim er hann ekkert heilagur. En eigi að fara í þessi mál þá verður það ekki gert á þennan hátt með lagasetningu á Alþingi.