Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 18:28:37 (4931)

2002-02-19 18:28:37# 127. lþ. 80.12 fundur 156. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (sjómannaafsláttur) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu sem öll var svona frekar á neikvæðu nótunum, enda kannski ekki undarlegt þar sem tveir hv. þm., þeir Guðjón A. Kristjánsson og Guðmundur Hallvarðsson, hafa báðir haft það að ævistarfi að gæta hagsmuna sjómanna. Það yrði undarlegt ef þeir breyttu út af því, komnir á þing. Þetta er afskaplega eðlileg og fyrirsjáanleg afstaða.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að sjómannaafslátturinn hefði verið við lýði í hálfa öld og honum yrði ekki breytt nema samkomulag næðist. Ég vil benda á að við erum að tala um lög frá Alþingi. Við erum að tala um undanþágu í skattalögum frá hinu háa Alþingi (Gripið fram í.) og því breyta þingmenn einir. Hvort það hefur áhrif á kjarasamninga er önnur saga.

Tveir hv. þm. hafa nefnt, alveg í rökþroti, háa reikninga sem sagt hefur verið frá í fréttunum undanfarið og það sýnir náttúrlega bara hvað málið er illa verjanlegt af þeirra hálfu. Það kemur þessu máli ekkert við hvort einhverjir hafi skrifað reikninga til einhvers ákveðins fyrirtækis í eigu ríkisins eða ekki. Það kemur þessu máli bara akkúrat ekkert við. En það sýnir rökþrotið í þessu máli.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði að sjómenn færu ekki í bíó. Þeir fara reyndar í bíó. Þeir eru með vídeó með sér um borð. En það gera bændur ekki heldur. Það gera hálendisverkamenn ekki heldur og fá hvorki bændaafslátt né hálendisverkamannaafslátt. (GAK: En þeir fá sér launa ...) Það vill nefnilega svo til að þeir sem eru uppi á hálendinu hafa fengið sér uppbót frá atvinnurekanda sínum til þess að hægt væri að fá þá til að vinna uppi á hálendinu. Það er einmitt þannig sem útgerðin fær styrk frá ríkinu. Hún ætti að sjálfsögu að borga mönnum álag til þess að fá þá út á sjó.

[18:30]

Það er svo sem ágætt að styrkja útgerðina á sama tíma og menn tala um að hún eigi að borga auðlindagjald og meðan aðgangur hennar að auðlindinni er takmarkaður. Hún hefur fengið þessa auðlind gefins, (Gripið fram í.) segja sumir og þar á meðal hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, þessi aumingjans útgerð fékk auðlind þjóðarinnar gefins, fjöreggið, fiskinn í sjónum. (GAK: Ertu ekki sáttur við það?) Nei, ég er svo sem ekki sáttur við það. Ég hefði á sama tíma viljað skera niður styrki til útgerðarinnar og ég geri ráð fyrir að ef hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson hugleiðir málið muni hann verða mér sammála í því, eftir smáumhugsun.

Hv. þm. sagði líka að ef af slíkri breytingu yrði þá þyrfti að bæta verulega stöðu sjómanna. Samkvæmt því er þetta verulegt mál, veruleg kjarabót fyrir þá og ekkert smámál.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, sem jafnframt er einn af varaforsetum Alþingis, sagði ótrúlega setningu. Hann sagði að það þyrfti að semja við Alþingi. Hann sagði að það þyrfti að semja við löggjafarsamkundu landsins, sem á stoð í stjórnarskránni, um lagabreytingar. Þetta er náttúrlega alveg út í hött, að Alþingi þurfi að leita til aðila út í bæ til að afnema forréttindi ákveðinna stétta. Það þarf Alþingi ekki. Hér er um að ræða lög frá Alþingi sem veita einni stétt forréttindi og það sem Alþingi hefur sett á getur Alþingi tekið af aftur.

Ég bendi á að það voru stéttir hér í eina tíð sem höfðu forréttindi, eins og aðallinn og kóngurinn og fleiri. (Gripið fram í.) Það var afnumið. Þegar skattfrelsi forsetans var afnumið var einmitt verið að afnema úreltar leifar af því vegna þess að það er viðurkennd grundvallarregla í réttarríkjum að þegnarnir skuli njóta jafnræðis við álagningu skatta. Flestar eða allar lýðræðisþjóðir stefna að því að gera alla jafna fyrir skattalögum.

Menn hafa nefnt forseta Íslands, að hann hafi hækkað í launum. Það er reyndar svo að það stendur í stjórnarskránni að ekki megi skerða laun forseta Íslands á kjörtímabilinu. Þannig var ekki hægt að gera annað. Það leiddi bara af stjórnarskránni að laun hans væru hækkuð sem næmi skattfrelsinu, en það sýndi líka raunverulega hver launin voru. Það væri kannski gaman að sjá hver raunveruleg laun sjómanna eru. Eins og kemur fram í greinargerðinni greiðir fiskverkakona með 125 þús. á mánuði jafnmikla skatta í staðgreiðslu og sjómaður eða beitningamaður við hliðina á henni með 167 þús. kr. á mánuði. Það er allt jafnréttið í þessum lögum. Beitningamaðurinn við hliðina á fiskverkakonunni sem er með 125 þús. kr. á mánuði. Hún borgar jafnmikla skatta og er því metin jafnmikill bógur og hann, sem hefur 167 þús. Þannig er misréttið í þessum lögum.

Síðan kom fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að sjómenn væru með skammarlega lágan örorkulífeyri. Ég legg til að hv. þm. skoði það betur því vegna framreikningsreglunnar eru menn sem hafa kannski 4 stig á ári, þ.e. fjórföld verkamannalaun --- og þeir eru nokkrir inni í Lífeyrissjóði sjómanna, ég þekki það --- með mjög góðan örorkulífeyri. Hann hleypur á hundruðum þúsunda. Þetta vildi ég gjarnan, ef hægt væri að spyrjast fyrir um það, fá upplýsingar um, þ.e. hvernig örorkulífeyrir dreifist eftir upphæðum á mánuði frá Lífeyrissjóði sjómanna. Það er svo önnur saga hvort menn eigi ekki alveg rétt á þessu, þeir sem eru öryrkjar að sjálfsögðu.

Menn hafa sagt að ekki sé hægt að breyta þessum lögum vegna þess að þar sé verið að ganga inn í gerða kjarasamninga o.s.frv. Önnur leið væri náttúrlega að allir landsmenn fengju sjómannaafslátt. Það kæmi líka til greina. Það er kannski lausnin á þessu mikla vandamáli (Gripið fram í.) þar sem ekki má breyta forréttindum ákveðinna stétta, að veita allri þjóðinni þessi forréttindi.