Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:12:45 (4948)

2002-02-19 19:12:45# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ekki get ég tekið undir að hér sé á ferðinni réttlætismál og ekki get ég heldur tekið undir að um þetta þurfi ekki að fjölyrða. Hér er mikið ágreiningsmál á ferðinni og ég vara mjög eindregið við því að Alþingi samþykki þetta frv. til laga. Ég ætla að leyfa mér að velta því upp að frumvarpshöfundar hafi ekki hugsað málið alveg til enda. Þetta kann að vera svolítið hrokafull yfirlýsing en ég ætla engu að síður að leyfa mér að halda því fram. Ég trúi nefnilega ekki öðru en að menn vilji styrkja lífeyriskerfið okkar frekar en að veikja það.

Ég held að enginn vafi sé á því að Íslendingar búa við eitt besta lífeyriskerfi í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Höfuðkostir þessa kerfis byggjast á skylduaðild, samtryggingu og sjóðasöfnun. Og það er óhætt að segja að víða sé þetta kerfi litið öfundaraugum.

Skylduaðildin er hér ekki dregin í efa. Menn vilja að allir greiði í lífeyrissjóði en hins vegar tel ég að valfrelsið sem þetta frv. á að innleiða muni, þegar upp verður staðið, draga úr þeirri samtryggingu sem íslensku lífeyrissjóðirnir byggja á og þar með þeirri samábyrgð sem launafólk hefur sýnt með smíði þessa kerfis.

Mjög mikið hefur verið skrifað um þetta efni. Ég er hér með nokkrar greinar sem ýmsir talsmenn lífeyrissjóðanna hafa látið frá sér fara, m.a. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra lífeyrissjóða. Hann hefur skrifað greinar í blöð undanfarin ár þar sem hann hefur tekið þetta mál sérstaklega fyrir. Í grein sem hann skrifaði 6. desember 1995 undir fyrirsögninni ,,Valfrelsi að lífeyrissjóðum er óskynsamlegt`` fjallaði hann í fimm liðum um þætti sem hann taldi mæla gegn breytingum af þessu tagi.

[19:15]

Í fyrsta lagi taldi hann að kostnaður lífeyriskerfisins mundi stóraukast ef aðild yrði gefin frjáls.

Og hann segir hér, með leyfi forseta:

,,Í öðru lagi mun frjáls aðild að lífeyrissjóðunum hafa í för með sér verulega aukinn kostnað við eftirfylgni við innheimtustarfsemi. Þegar búið verður að hleypa öllu lausu verða að sjálfsögðu sífelldir flutningar sjóðfélaga á milli lífeyrissjóða og í stað þess að fyrirtæki greiddi t.d. nú í 10 lífeyrissjóði af starfsmönnum sínum gætu sjóðirnir orðið margfalt fleiri og enginn vissi sitt rjúkandi ráð, hvert ætti að greiða og hver ætti að innheimta vanskilagjöld. Lögfræðingar við innheimtustörf mundu blómstra meira en nokkru sinni fyrr.

Í þriðja lagi væri sú hætta vissulega fyrir hendi að launþeginn, sem mun hafa mjög takmarkaða yfirsýn yfir rekstur lífeyrissjóða, þar á meðal mat á líklegri ávöxtun fram í tímann, þróun rekstrarkostnaðar, aldurssamsetningu, kynjasamsetningu, ævilíkur og örorkuáhættu, léti einfaldlega atvinnurekandann um að velja lífeyrissjóðinn. ... Þannig væru sjóðfélagarnir orðnir að eins konar viðskiptavöru, nánast eins og fé á fæti í öllu frelsinu.``

Við þetta vil ég bæta að sú hætta er fyrir hendi að atvinnurekendur reyndu að þröngva launafólki inn í lífeyrissjóði sem væru ódýrastir fyrir þá. Þetta er sérstaklega hættulegt á tímum þegar atvinnuleysi er mikið og fólk á ekki margra kosta völ hvað atvinnu snertir.

Við fjórða atriðið sem Hrafn Magnússon nefnir erum við komin að því sem ég tel alvarlegasta málið:

,,Í fjórða lagi mun valfrelsi brjóta smám saman niður samtryggingareðlið í lífeyrissjóðakerfinu.``

Ég vík að því aðeins nánar hér á eftir. En fimmta atriðið er náskylt þessu segir Hrafn, með leyfi forseta:

,,Í fimmta lagi væri farið að verðleggja sjóðfélagann eftir kyni, þar sem konur lifa lengur en karla og þyrftu því að greiða hærri iðgjöld en þeir. Eftir aldri, því iðgjöld sjóðfélaga eru þeim mun verðmætari, sem sjóðfélaginn er yngri og eftir fjölskylduaðstæðum, því fjölskyldufaðir, sem fellur frá, er kostnaðarmeiri en sá sem er einhleypur. Þannig yrði núverandi kerfi samhjálpar og samtryggingar í lífeyrissjóðunum rústað á fáeinum mánuðum ...``

Þetta er tilvitnun í grein eftir Hrafn Magnússon framkvæmdastjóra Sambands almennra lífeyrissjóða. Hún og birtist í Morgunblaðinu 6. desember 1995.

Ég er með fleiri greinar af svipuðum toga þar sem rök koma fram gegn þessu frv.

Er alveg út í hött að hætta sé á því að samtryggingareðli lífeyrissjóðanna sé stefnt í hættu? Nei, reyndar er því fagnað í greinargerð með frv., því þar segir, með leyfi forseta:

,,Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin, að lífeyrissjóðir veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu.``

Þetta er tilvitnun í greinargerð með frv. Hvað þýðir þetta í reynd? Þetta þýðir t.d. að lífeyrisréttindi kvenna yrðu rýrari en lífeyrisréttindi karla. Þær lifa að jafnaði lengur og hér er verið að vísa í að það sé líklegt að tekið yrði tillit til eða mið af kynjastöðu. Síðan er líklegt að samtryggingarþáttunum í kerfinu --- þar vísa ég í örorkubætur og aðra slíka þætti --- yrði öllum í voða stefnt. Nefna má annað dæmi: Einhleypingur er minni áhætta en fjölskyldufaðir eða fjölskyldumóðir vegna þess að lífeyrissjóðirnir hafa þá skyldu að tryggja börnunum lífeyri. Þannig mætti áfram telja.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. Mér finnst mikilvægt að málið komist til nefndar og fái þar ítarlega umfjöllun. Hins vegar heiti ég því að komi það úr nefnd óbreytt þá hef ég nokkrum orðum við þetta að bæta.