Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:20:50 (4949)

2002-02-19 19:20:50# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:20]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja það að sú fullyrðing hv. síðasta ræðumanns að þetta sé vanhugsað og hafi ekki verið unnið til enda er ekki rétt. Í þetta hefur verið lögð mikil vinna og vil ég nú benda á að hvorki meira né minna en tveir lögfræðingar eru flutningsmenn að þessu frv. Við höfum rætt við fjöldann allan af fólki sem þekkir til í lífeyrissjóðum, fólk sem er að greiða í lífeyrissjóði og fólk sem hefur látið sig þessi mál mikið varða.

Aðeins um þau rök sem hv. þm. tíndi til úr vopnabúri Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Sambands almennra lífeyrissjóða, þá vil ég fyrst segja um kostnaðinn að ég tel það ekki vera rök. Ég tel það einfaldlega ekki vera rök. Ef kostnaður hleypur upp úr öllu valdi þá eru stjórnendur og starfsmenn lífeyrissjóða einfaldlega ekki að gegna skyldum sínum. Þar að auki stendur í lögum um lífeyrissjóði að þeim sé óheimilt að verja verulegu fjármagni til auglýsinga eins og hv. þm. veit.

Hvað varðar flakk á milli lífeyrissjóða, að fólk viti ekki í hvaða lífeyrissjóði það sé að borga og hafi verið að borga þá tel ég annars vegar að með nútímasamskiptatækni, tölvuútskriftum og slíku sé það einfalt, en vek jafnframt athygli á því að þetta er vandamál eigi að síður í dag. Ég sé því ekki að það breyti neinu.

Ég hafna því líka að atvinnurekandi velji fyrir einstakling. Ég hef meiri trú á einstaklingum en svo. Þar að auki trúi ég að það sé m.a. hlutverk verkalýðsfélaga, eins og hv. þm. ætti að vita, að gæta hagsmuna launþega á þessu sviði.

Síðast en ekki síst tel ég það vera fullyrðingu sem er mjög lítið rökstudd að samtryggingin muni hrynja. Ég hafna því, enda er það ekki tilgangurinn. Ég segi eingöngu: Á grundvelli gildandi laga segir að ekki megi meina fólki aðgang að lífeyrissjóði á grundvelli kyns, aldurs, hjúskapar, trúar o.s.frv. Því spyr ég: Ætti það að breyta einhverju þó að þarna væri bætt við: ,,... á grundvelli atvinnu``? Ég sé ekki að sá þáttur (Forseti hringir.) muni láta samtryggingarþáttinn hrynja.