Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:27:26 (4952)

2002-02-19 19:27:26# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:27]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf í raun ekki að hafa mörg orð um þetta. Frumvarpshöfundar sjálfir eru að leggja til að flýtt verði þeirri þróun að lífeyrissjóðirnir fari að veita mismunandi lífeyrisréttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu. Þá er það staðreynd að einhleypur maður ætti að fá hærri lífeyri en fjölskyldufaðir eða fjölskyldumóðir vegna þeirra samtryggingarákvæða lífeyrissjóðanna að börn fái lífeyri úr lífeyrissjóðum að foreldrum sínum látnum, þ.e. ef þau eru á unga aldri. Það er því verið að tala um mismunun á þessum grundvelli. Væntanlega munu menn flykkjast í sjóðina þar sem einhleypa, unga, hressa og heilsuhrausta fólkið er. Frumvarpshöfundar sjálfir eru að leggja áherslu á þessa mismunun lífeyrisþega. Út á það gengur þetta. Ég vara við því að þetta frv. verði samþykkt. Það var þess vegna sem ég sagði, eiginlega af umhyggju fyrir frumvarpshöfundum, að ég vonaði að þetta væri vanhugsað af þeirra hálfu því ég trúi því ekki að menn vilji fara út á þessa braut.