Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:38:10 (4954)

2002-02-19 19:38:10# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:38]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. Ásta Möller draga upp heldur vonda mynd af hugsanlegum afleiðingum þessa frv. ef að lögum yrði. Ég vil fyrst segja að það ríkir ekki sátt um núverandi kerfi. Hún kann að ríkja meðal þeirra sem eru í stjórnum lífeyrissjóða og þeirra sem starfa hjá þeim en meðal þeirra sem greiða í lífeyrissjóði og sjá fram á að geta tekið út úr þeim ríkir ekki sátt, og það er ein ástæða þess að flutningsmenn flytja þetta frv. Eins og ég kom inn á í fyrstu ræðu minni er ólík ávöxtun sjóðanna eitt af því sem fólk horfir á sem þýðir einfaldlega að sjóðirnir skila misháum lífeyri til einstaklinganna, m.a. vegna þess að sjóðirnir standa sig misvel.

Hvers vegna standa þeir sig misvel? Ástæðan gæti e.t.v. verið sú að þeir hafa afskaplega takmarkað aðhald því þeir vita að það er skylduaðild í þennan tiltekna sjóð.

Ég legg líka áherslu á að á grundvelli gildandi laga er ekki heimilt að meina fólki um aðgang á grundvelli hjúskapar, trúarbragða, aldurs, heilsufars og þar fram eftir götunum. Það hefur rækilega verið tekið fram hér og ég er nokkrum sinnum búinn að segja það í þó ekki lengri umræðu að það er ekki hugsunin með frv., eins og stendur bara í frumvarpsgreinunum, að breyta því. Áhersla er lögð á að halda skylduaðildinni. Og það er einmitt ekki ætlunin að sjóðir geti valið sér heldur er þeim þvert á móti ætlað að taka við öllum sem sækja um inngöngu í lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir væru einfaldlega að brjóta lög ef þeir ýttu fólki frá á grundvelli þeirra atriða sem hér hafa verið talin upp. Við viljum einfaldlega bæta inn einu atriði, að ekki sé hægt að meina fólki inngöngu á grundvelli atvinnu. Það atriði getur ekki hleypt lífeyrissjóðakerfinu í uppnám.