Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:40:22 (4955)

2002-02-19 19:40:22# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:40]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Hjálmari Árnasyni um að ekki ríki sátt um kerfið. Ég held þvert á móti að það sé almenn sátt um lífeyrissjóðakerfið í landinu, hvernig það er rekið, hvaða réttindi það gefur í framtíðinni og stýringu þessara sjóða.

Eins og ég skil flutningsmenn --- ég hef lesið það í gegnum línurnar og reyndar kom það fram í framsöguræðu hv. þm. áðan --- er ástæðan fyrir þessu frv. mismunandi ávöxtun sjóðanna. Sjóðir sem skiluðu mikilli ávöxtun fyrir einu eða tveimur árum, upp á 20--30%, eru sjóðirnir sem eru í mestum mínus í dag. Sveiflurnar eru gríðarlega miklar. Ég vildi því fá svar við spurningu sem ég varpaði fram í ræðu minni: Gerir hv. þm. ráð fyrir því að fólk flytji sig oft á milli sjóða eða velji einn sjóð og haldi sig við hann? Ef hugmyndin er nefnilega sú að flytja oft milli sjóða er alveg augljóst að vinnan eykst og þar af leiðandi kostnaðurinn við rekstur lífeyrissjóðakerfisins. Allir fara í þann sjóð sem býður upp á 30% ávöxtun í dag en síðan skilar hann mínus 8% á morgun, eins og mörg dæmi eru um, og þá vilja allir fara þaðan. Hvaða stöðugleiki er í þessu kerfi og hvernig verður þá farið með réttindi þeirra sem sitja eftir í þeim sjóðum því þetta byggir allt saman á samtryggingu? Þetta byggir á tryggingarhugsjóninni þar sem í pottinum er ákveðið þýði sem stendur undir pakkanum í heild þar sem aðstæður þeirra eru mismunandi.