Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:51:02 (4959)

2002-02-19 19:51:02# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:51]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að spá um hverjir velji og hvað og hversu oft. En samkvæmt frv., eðli málsins samkvæmt, þá getur einstaklingur fært sig á milli a.m.k. á fimm ára fresti. Eignin er alltaf bundin a.m.k. í fimm ár. Ég treysti mér ekki til þess að spá um það hvernig menn velja, eftir aldri, kyni, starfsstétt o.s.frv.

Það sem mun ráða því hins vegar að mínu mati er hvernig sjóðirnir standa sig. Þetta setur meiri kröfu á sjóðina um að standa sig vel hvað varðar ávöxtun, hvað varðar samtryggingu og hvað varðar lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum. Aðhaldið er að mörgu leyti afskaplega takmarkað í dag vegna þess að sjóðirnir eru mjög verndaðir. Þeir eru tryggðir fyrir því að fólk er dæmt til þess að fara inn í þá og aðhaldið er í raun afskaplega takmarkað. Það sýna líka tölurnar um alveg ótrúlega ávöxtunarsveiflu á milli einstakra sjóða. Þetta setur á þá kröfu um að ávaxta sig sem sem best, um að halda útgjöldum í lágmarki þannig að eigendurnir, þeir greiða í lífeyrissjóðina, fái sem mest þegar þeir byrja að fá greiðslur út úr sjóðunum.

Ég segi enn og aftur að það er ekki verið að hverfa frá skylduaðild. Hvað varðar spurninguna um að krafa komi frá sjóðunum um að fá að takmarka aðgang og meina einstökum hópum aðgang þá er það til staðar í dag. Sjóðirnir geta meinað fólki um aðgang á grundvelli atvinnu. Það er eina breytingin sem er verið að leggja til.

Ef sú krafa kæmi hins vegar upp í kjölfarið að sjóðir vildu meina fólki aðgang á grundvelli hjúskapar eða aldurs eða því um líks þá mun ég leggjast gegn því vegna þess að þá erum við að tala um tilræði við samtrygginguna sem ég hygg að flestir séu sammála um. Það er engu verið að breyta í núverandi kerfi öðru en því að fólk þurfi ekki að vera dæmt eftir starfi sínu inn í tiltekna sjóði.