Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:54:56 (4961)

2002-02-19 19:54:56# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:54]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú nokkuð flókið dæmi sem hv. þm. setti upp. (GAK: Nei. Þetta var mjög ...) Ég hygg hins vegar, miðað við texta frv., að gert sé ráð fyrir því að einstaklingur verði að binda sig til fimm ára þannig að flutningurinn verði að vera á fimm ára fresti.

Að gefnu tilefni --- ég held ég verði að víkja að því af því að oft og iðulega hefur verið vitnað til lokaorðanna í greinargerð frv. --- held ég að ég verði að upplýsa að þar er um að ræða sérálit eins hv. meðflytjanda þessa máls, enda er það að sumu leyti á skjön við það sem ég hef verið að segja hér og er meginefnið í greinargerðinni. Það er í raun sérálit eins hv. flytjanda þessa frv. og túlkar ekki sjónarmið hinna að ég hygg. Ég hygg að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson viti um hvern er rætt en hann mun þá upplýsa það á síðari stigum sjálfur, sá hv. þm.

Enn og einu sinni árétta ég að samtryggingin helst, sú fallega mynd sem fylgir samtryggingunni. Eina breytingin er að einstaklingurinn fær að velja sjálfur hverjum hann treystir best til að ávaxta eign sína þannig að einstaklingurinn fái enn betri tekjur þegar hann kemst á efri ár.