Meðferð opinberra mála

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 20:23:05 (4967)

2002-02-19 20:23:05# 127. lþ. 80.21 fundur 265. mál: #A meðferð opinberra mála# (áfrýjunarréttur, fjölskipaður dómur) frv., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[20:23]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir góðar undirtektir við þetta frv., og þau rök sem hann tefldi fram tel ég vera mjög góð. Hann benti á að ef við tækjum upp þá skipan að hafa jafnan fjölskipaðan dóm þegar um er að ræða mál sem ráðast af sönnunargildi framburðar vitna þar sem þarf að vega og meta ýmis álitaefni er líklegt að einstaklingur mundi hugsa sig tvisvar um áður en hann skyti málinu til Hæstaréttar. Annað er uppi á teningnum þegar einn dómari situr í slíkum dómi þannig að ég held að þarna séu komin fram ágæt rök. Ástæðan fyrir því að þetta vald er sett í hendur Hæstaréttar, að hann geti lagt mat á það hverjir megi áfrýja málum, byggir á því að stytta þurfi biðlista frammi fyrir Hæstarétti. Þetta eru reyndar rök sem eiga að sjálfsögðu ekki að heyrast í réttarríki. Það á ekki að vera háð duttlungum eða mati Hæstaréttar hverjir fái leyfi til að áfrýja til réttarins, til æðra dómstigs. Annaðhvort eru tvö dómstig í landinu eða ekki, og allir eiga að sitja við sama borð og njóta sama réttar eða við getum hreinlega ekki kallað okkur réttarríki. Þess vegna lít ég svo á að þetta frv. og þessar lagabreytingar sem hér eru lagðar til varði mannréttindi.

Ég þakka mjög góðar undirtektir við þetta mál og vona að það fái samþykki fyrir vorið.