Brottvikning starfsmanns Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:16:59 (4977)

2002-02-25 15:16:59# 127. lþ. 81.1 fundur 353#B brottvikning starfsmanns Landssímans# (óundirbúin fsp.), LB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:16]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Af svörum hæstv. ráðherra má ætla að hann hyggist ekki beita sér neitt sérstaklega í þessu tiltekna máli. Það er dálítið sérstakt, virðulegi forseti, að menn skuli kalla það að verið sé að slá pólitískar keilur. Alþjóðasamfélagið hefur mjög víða, og mörg lýðræðisríki, verið að taka upp og setja sér lög og reglur um að í tilvikum eins og þessu skuli vernda einstaklinginn, skuli vernda starfsmennina, og það er hvatning til að þeir upplýsi um slíka hluti.

Það er alveg ljóst, og það hefur komið fram í þessari umræðu, að það sem upplýst var um stenst ekki ákvæði hlutafélagalaga. Því ítreka ég þá fyrirspurn til hæstv. forsrh. --- ég hlýt að ítreka hana í ljósi þess sem fram hefur komið --- hvort hann hyggist beita sér eitthvað sérstaklega. Komið hefur fram að hann hyggist ekki beita sér gagnvart þessum starfsmanni en hyggst hann beita sér sérstaklega varðandi þetta ólögmæta samkomulag hæstv. samgrh. og stjórnarformanns Símans?