Brottvikning starfsmanns Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:18:15 (4978)

2002-02-25 15:18:15# 127. lþ. 81.1 fundur 353#B brottvikning starfsmanns Landssímans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það liggur sem sagt fyrir að viðkomandi starfsmaður var ekki að upplýsa um neitt refsivert athæfi sem hefði átt sér stað. Það er það sem menn hafa rætt um í alþjóðasamfélagi. Menn verða að fara rétt með.

Þessi ágæti starfsmaður, hver sem hann er, hafði ekkert fyrir sér í því á þessu augnabliki að hann væri að upplýsa um lögbrot, ekki nokkurn skapaðan hlut. Hann hafði margar aðrar leiðir innan fyrirtækisins án þess að bregðast trausti og trúnaði þess. Þess vegna er fáránlegt þegar menn í stjórnarandstöðu, sem eru í vandræðum með stjórnarandstöðu sína, skuli leggjast niður á það plan sem ég horfði á formann Samfylkingarinnar gera í sjónvarpinu, grípa í einhverjum vandræðagangi aftur og aftur einhver svona mál sem síðan kemur á daginn að eru tóm endaleysa, og sá málflutningur allur.

Þessi starfsmaður innan fyrirtækisins þarf auðvitað að gæta þess að hann hefur ekki leyfi til þess að fara með fleipur í fjölmiðla af þessu tagi eða til annarra aðila. Hann er bundinn trúnaði. Þannig gildir það alls staðar í þjóðfélaginu. Það er ekki um það að ræða að verið væri að upplýsa að menn væru að hylma yfir refsiverðan atburð. Ekkert slíkt dæmi lá fyrir. Mér finnast því þessar pólitísku keilur vera langt fyrir neðan virðingu venjulegra almennra þingmanna sem auðvitað eiga alla virðingu skilda, ég tala ekki um forustumanna í flokkum.