Framkvæmd Kyoto-bókunarinnar

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:23:52 (4982)

2002-02-25 15:23:52# 127. lþ. 81.1 fundur 354#B framkvæmd Kyoto-bókunarinnar# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er svokölluð ráðuneytisstjóranefnd sem vinnur að tillögum um stefnumótun varðandi Kyoto-samkomulagið. Þeirri vinnu er ekki lokið þannig að ég get ekki upplýst hér og nú nákvæmlega hvenær við komum með þá stefnu inn í þingið en a.m.k. er sú vinna á lokastigi.

Ég hef beitt mér fyrir því að Kyoto-bókunin verði fullgilt á yfirstandandi þingi. Núna er uppi í utanrrn. verið að vinna að því að útbúa þau plögg. Mér er kunnugt um að það er frekar flókið að þýða bókunina vegna þess að það eru mörg þung og ný tækniorð í þessari bókun eins og reyndar í öðrum bókunum sem við höfum áhuga á að fullgilda bráðlega samanber samninginn um þrávirk lífræn efni og fleiri slíka samninga.

Einnig var spurt um stefnumótun Bandaríkjanna. Ég hef skoðað það sem forseti Bandaríkjanna hefur látið hafa eftir sér opinberlega upp á síðkastið og ég fagna því að Bandaríkjamenn ætla að setja talsvert af fjármunum í rannsóknarstarfsemi. Hins vegar hefði ég gjarnan viljað sjá þá koma meira að Kyoto-bókuninni sjálfri en þeir hafa kosið að gera. Ég hef lýst því yfir áður að ég tel að þegar við unnum Kyoto-bókunina til enda reyndum við að hafa hana þannig að Bandaríkjamenn mundu eiga auðveldara með að koma að henni síðar. Þeir eru stærsti einstaki losarinn á gróðurhúsalofttegundum í heiminum þannig að það væri eðlilegt að þeir kæmu að Kyoto-bókuninni af því að hún er eina bókunin, eina ferlið eða leiðin, sem aðrir í alþjóðasamfélaginu hafa sameinast um að ganga.