Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:59:29 (4994)

2002-02-25 15:59:29# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Saga hins svonefnda eða svokallaða Þjóðmenningarhúss er stutt en fremur dapurleg. Menn þekkja hér á þingi hvernig til tókst um endurbætur á þessu sögufræga og glæsilega húsi, en þar fuku allar kostnaðaráætlanir út í veður og vind og um stórlega ámælisverða umsýslu og framkvæmd var í raun og veru að ræða, og það undir nefinu á sjálfu forsrn. Tæpt steinkast frá Stjórnarráðinu stendur þetta hús.

Nú hafa síðan komið upp hlutir í stuttri rekstrarsögu eða starfrækslusögu hússins sem hljóta að teljast með endemum í ljósi þess að starfsemin þarna er varla komin af stað, eða það getur varla heitið meira en svo. Þessir hlutir eru auðvitað algjörlega óásættanlegir og því miður, herra forseti, dregur það athyglina að því, þar sem forsrn. og forsrh. verður að líta í eigin barm, að um þessa starfsemi gilda engin lög né reglur. Það er ekki skýrt hver eigi að vera tilgangurinn með rekstri hússins. Staða forstöðumanns virðist ekki hafa verið auglýst o.s.frv. Þetta, herra forseti, geta ekki talist fyrirmyndarverðir stjórnsýsluhættir. En þær kröfur hljótum við að gera til ekki síst forsrn. að það sé öðrum að breyttu breytanda til fyrirmyndar um góða stjórnsýslu. Hér á það ekki við.

Því er ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. í leiðinni: Stendur til að bæta úr þessum háttum? Verða sett lög nú í framhaldinu um Þjóðmenningarhús? Og verður tryggt að í framtíðinni byggi sú starfsemi á lögum og reglum og skýrum stjórnvaldsfyrirmælum, að þar verði stöður auglýstar, menn starfi samkvæmt erindisbréfum og annað þar fram eftir götunum? Ég held, herra forseti, að við eigum að láta þau víti sem hér hafa orðið okkur að kenningu verða.