Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:01:50 (4995)

2002-02-25 16:01:50# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar við fjárhagsendurskoðun Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns eru alvarlegs eðlis. Forsrh. og menntmrh. hafa tekið undir þær með því að senda bréf til þeirra forstöðumanna sem í hlut eiga, þar sem tekið er fram að í mörgum tilvikum sé um ámælisverða framkvæmd að ræða. Ríkissaksóknari er einnig með þessi mál til skoðunar.

Í bréfi forsrh. til forstöðumanns Þjóðmenningarhúss segir, með leyfi forseta:

,,Forsætisráðuneytið fellst á niðurstöður Ríkisendurskoðunar og telur að í mörgum tilvikum sé um ámælisverða framkvæmd að ræða. Leggur ráðuneytið áherslu á að úr öllum þessum annmörkum verði þegar bætt og mannahaldi og ákvörðunum um greiðslur til einstaklinga fyrir einstök verk verði hagað þannig að hafið sé yfir allan vafa og verði ekki til þess fallnar að vekja tortryggni. Verður mælst til þess við Ríkisendurskoðun að vendilega og venju fremur verði með því fylgst að ný og bætt vinnubrögð verði tekin upp.``

Í bréfi menntmrh. til þjóðskjalavarðar eru vinnubrögð hans átalin og lögð áhersla á að strax verði brugðist við til úrbóta. Hér er því augljóslega hart og alvarlega brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar. Margar spurningar vakna þegar upp koma mál af því tagi sem hér eru til umræðu. Þær lúta fyrst og fremst að ábyrgð, aga, aðhaldi og eftirliti í opinberri stjórnsýslu. Það er grundvallaratriði í réttarríki að stjórnsýslan fari í einu og öllu að lögum. Þess vegna er nauðsynlegt að jafnan sé tekið á þeim málum sem upp koma af festu, vandvirkni og ábyrgð. Þar á eitt yfir alla að ganga og gæta fyllsta samræmis við meðferð mála sem geta sannarlega verið mjög flókin.

Forsrh. hefur greint frá því við þessa umræðu að forstöðumanni Þjóðmenningarhúss hafi verið vikið frá störfum tímabundið meðan mál hans eru til skoðunar. Þau viðkvæmu mál sem hér eru til umræðu sýna að eftirlitskerfið er virkt og að tekið er á erfiðum málum á skilvirkan og vandaðan hátt.